Listi

Súperoxíð Dismútasi úr sjávarfangi í húðáburði og snyrtivörur

Verkefnisstjóri: Dr. Jón Bragi Bjarnason

Verkefni til 1 árs

Upphæð styrks: 3.960.000 kr

Upphafsár: 2005

Áætlað lokaár: 2006

Fyrirtæki: Ensímtækni ehf.


Markmið verkefnisins: Markmið rannsóknar- og þróunarvinnu verkefnisins er að kanna fýsileika þess að vinna Súperoxíð Dismútasa ensím úr verðlitlu sjávarfangi til notkunar í snyrtivörur, fæðubótarefni og hugsanlega aðrar vörur.

Kosturinn við að nota Súperoxíð Dismútasa úr sjávarfangi í áframhaldandi þróun snyrtivara hjá Ensímtækni e.h.f. er sá að notuð verði eingöngu ensím úr sjávarfangi eða “all marine enzymes” í vörurnar. Þetta mun auðvelda markaðsstarf vegna sérstöðu og jákvæðrar ímyndar ensíma úr sjávarfangi, sérstaklega úr hafinu í kringum Ísland.

Leitast verður við að þróa aðferðir til vinnslu Súperoxíð Dismútasa þannig að jafnframt verði unnt að vinna önnur lífefni úr sama hráefni.

Tilvísunarnúmer AVS: R 006-05

Verkefninu er lokið

Helstu niðurstöður:

Virkni Súperoxíð Dismútasa (SOD) mældist í öllum þremur hráefnum úr sjávarfangi sem gert var ráð fyrir að skoða, þ.e í ýsuroði, fiskhrognum og grófu Kríótíni, útdrætti úr innyflum þorsks, sama hráefni og notað er í vinnslu Pensíms og Dr. Bragi Age Management Formulation. Mest SOD virkni mældist í Kríótíni og var því haldið áfram með það hráefni í frekari rannsóknum. Við samanburð á hinum ýmsu Kríótín afbrigðum kom í ljós að líklega væri heppilegast að nota Kríótín I, þar sem búið er að fjarlægja trypsín og chymotrypsín úr Kríótíni, til þess að hreinsa SOD.

Staðsetning (salt styrkur) SOD losunar af MonoQ súlu fyrir Kríótín I var greind og þróuð voru kjörskilyrði til bindingar og losunar SOD í Kríótín J af súlu af MonoQ gerðinni. Ítarlegar tilraunir leiddu til þróunar á uppþrepun á hreinsun á SOD ensími úr þorskslógi með þremur súluhreinsunarskrefum, þ.e. fyrst Q-sepharose súlu til bindingar á litnum í hráefninu, svo Phenyl-Sepharose til bindingar á chymotrypsíni og loks Q-sepharose súlu til bindingar á SOD ensíminu en gegnumflæðis á elastasa.

Heimtur ensímvirkninnar var um 40% með þessari aðferð og hreinsun tæplega sjöföld. Hreinleiki SOD ensímsins var sýndur með hreinleikagreiningum á MonoQ súlugreiningum og rafdrætti. Áhrif sýrustigs á stöðugleika SOD ensímins var greind og reyndist SOD ensímið stöðugt í súru og hlutlausu umhverfi en óstöðugt í basísku umhverfi. Áhrif hitastigs á stöðugleika SOD ensímins var greind og reyndist SOD ensímið stöðugt við lágan hita en fór að missa virkni við 40°C og þaðan af hærra hitastig.

Viðræður standa nú yfir við Pure Icelandic Ltd. Um möguleika þess að markaðssetja og selja andlitssnyrtivöru með SOD úr þorskslógi.Til baka Senda grein

header15


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica