Fréttir

Repjumjöl í fóður fyrir lax

Verkefnið "Repjumjöl í fóður fyrir lax" R 001-16 er lokið. Lokaskýrslan er bundin trúnaði til þess að byrja með.

18.1.2018

Notkun repjumöls í fóðri fyrir Atlantshafslax hefur lítið verið rannsökuð og þess vegna var farið í það verkefni, með styrk frá AVS sjóðnum, að skoða áhrif þess að skipta út fiskimjöli fyrir repjumjöl á vöxt, fóðurnýtingu og þrif hjá laxi.

Spá matvælastofnunnar sameinuðu þjóðanna (FAO) bendir á að auka þurfi matvælaframleiðslu um 70% á næstu 35 árum til að mæta vaxandi þörfum mannkyns. Samhliða er þörfin fyrir aukinni framleiðslu hráefna til fóðurgerðar handa hverskonar eldisdýrum knýjandi. Repjurækt er mikilvægasta olíu-fræræktun í Evrópusambandinu hvar heildar framleiðslan er um 20 milljón tonn árið 2016. Ræktun repju hefur verið stunduð á norðurlöndum og víðar í löndum norður Evrópu með ágætum árangri. Með hlýnandi veðurfari eru vaxandi tækifæri til ræktunar repju á Íslandi. Fyrir fáeinum árum stóð Siglingamálastofnun fyrir tilraunarækt víða á landinu, sem gaf ágæt fyrirheit um möguleika á góðri uppskeru þegar vel tókst til. Þær niðurstöður og umfjöllun um ræktunina urðu hvati til aukinnar repjuræktunar á Íslandi og nokkrir ræktendur, einkum á Suðurlandi, hafa lagt í repjurækt á stærri ökrum.

Repjuræktin miðar að framleiðslu olíu, sem nýta má beint í matvæli og fóður en einnig sem eldsneyti (líf-dísill) á vélar. Við vinnslu olíunnar úr fræjunum fellur til repjumjöl eða hrat, sem er um 70% af fræ þunganum. Repjumjölið er próteinríkt, inniheldur 30 – 35% prótein, auk talsverðrar fitu (repju oíu) og trefja. Vinnsluaðferðir við nýtingu og vinnslu repjufræsins hafa áhrif á efnasamsetningu og eiginleika hratsins.

Fyrir nokkrum árum studdi AVS sjóðurinn rannsóknir á notkun repjumjöls sem hráefnis í fóður fyrir bleikju. Niðurstöður þeirrasýndu að repjumjöl er vel nýtanlegt hráefni í bleikjufóður og ágætur valkostur við blöndun fóðurs sem liður í að minnka notkun fiskimjöls í fóðrinu.

Notkun repjumöls í fóðri fyrir Atlantshafslax hefur lítið verið rannsökuð og þess vegna var farið í það verkefni, með styrk frá AVS sjóðnum, að skoða áhrif þess að skipta út fiskimjöli fyrir repjumjöl á vöxt, fóðurnýtingu og þrif hjá laxi.

Í rannsókninni var lax  fóðraður með fóðri sem innihélt 5 mismunandi mikla innblöndunu repjumjöls, sem fengið var frá Danmörku. Þess var gætt að heildar innihald próteins og fitu væri nánast jafnt í öllum fóðurgerðunum. Tilraunin stóð í 132 daga í saltvatni við  7,7 – 8,3°C hita, súrefnismettun um 102% og stöðugt ljós allan tilraunatímann. Á tilraunatímanum tvöfaldaði laxinn þyngd sína. Upphafsþungi fiska var 644 grömm og loka þunginn var á bilinu 1135-1297grömm.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hægt er að nota umtalsvert magn af repjumjöli í vaxtarfóður fyrir lax á þessu stærðarbili (600 – 1300 grömm) án þess það komi niður á vexti, fóðurnýtingu eða sláturgæðum fisksins. Þannig má draga úr notkun  fiskimjöls í fóðri. Þessar niðurstöður benda sterklega til þess að repjumjöl  sem framleitt er á Norðurlöndum geti verið mikilvægt fóðurhráefni í eldisfóður fyrir laxfiska í framtíðinni. Þær ættu að verða hvati til aukinnar repjuræktunar á Íslandi, sem liður í vaxandi sjálfbærni matvælaframleiðslunnar.

Til baka Senda grein

header11


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica