Fréttir
  • Bleikjur
    Bleikjur

Umhverfi í bleikjueldi skiptir miklu

4.10.2010

Umhverfisþættir sem rannsakaðir voru í AVS verkefninu „Skilgreining á kjöreldisaðstæðum í bleikjueldi“ höfðu umtalsverð áhrif á vöxt og viðgang bleikju í eldi. Hitastig við seiðaeldi var rannsakað ásamt áhrif ljóss og seltu.

Lokið er rannsókn (Skilgreining á kjöreldisferlum í bleikjueldi) þar sem unnið var með mikilvæga umhverfisþætti í bleikjueldi. Markmiðið var að skilgreina hvernig hægt væri að beita umhverfisþáttum til þess að auka framleiðni. Bleikjueldi fer einkum fram í kerum á landi. Í strandeldi má hafa áhrif á þætti eins og eldishita, seltustig og ljóslotu á öllum stigum eldisins. Aðstæður eru þó misjafnar eins og eldisstöðvarnar eru margar. Unnið var með hvern þessara þátta fyrir sig, þ.e. eldishita, ljóslotu og seltustig.

Þeir umhverfisþættir sem rannsakaðir voru höfðu umtalsverð áhrif á vöxt og viðgang bleikju. Hægt er að ná fram umtalsverðri vaxtaraukningu með því að ala bleikju við háan hita (14-15 °C) á seiðastigi. Eftir 6 mánaða eldi var bleikja við 15°C, 44 og 78% þyngri en bleikjur sem aldar höfðu verið við 12 eða 9 °C. Hins vegar tókst ekki að viðhalda þessum vaxtarávinningi af hærri hita á seiðastigi þegar fiskur var alinn áfram við lægri eldishita (12 eða 7 °C). Val á eldishita á seiðastigi þarf því samkvæmt þessu að taka mið af eldishita í áframeldi. Eldishiti á seiðastigi ætti einnig að taka mið af áætlaðri sláturþyngd. Ef ala á bleikju í 1 kg eða meira virðist koma betur út að notat ekki hærri eldishita á seiðastigi en 9 – 12 °C.

Við eldi á bleikju er einkum notast við stöðugt ljós (LD24:0) á seiðastigi. Kannaður var mögulegur ávinningur af því að ala seiði við vetrarljóslotu (LD8:16) í sex vikur en fyrir og eftir meðhöndlun var notast við stöðugt ljós. Niðurstöður benda til þess að hægt sé að auka vöxt á bilinu 12-19% (settir voru upp þrír hópar sem fengu stuttan dag á mismunandi tíma ársins) í samanburði við hópa sem aldir voru við stöðugt ljós. Aukinn vöxtur kom einkum til vegna aukins fóðuráts og betri fóðurnýtni á tímabili þegar hópar (sem fengu stuttan dag) voru settir aftur á stöðugt ljós.

Áhrif seltu á vöxt og fóðurnýtingu bleikju var könnuð. Bleikjuhópar voru aldir við þrjá seltuferla, stöðugt við 16 eða 26 prómill og þriðji hópur var flutt af 16 prómill eftir 2 mánuði á 26 prómill (16-26). Bleikja sem alin var við lægri seltu hafði hærri vöxt sem einkum skýrist af meira fóðuráti og betri fóðurnýtingu. Fiskur sem alinn var við 16 prómill allan tímann var 12% þyngri en bleikja sem alin var við 26 prómill. Bleikja sem var alin við 16 prómill í 2 mánuði og síðar alin við 26 prómill var 8% þyngri við lok tilraunar en hópur sem alinn var stöðugt við 26 prómill. Ekki kom fram afgerandi munur á fóðurnýtingu eða kynþroskastigi á milli hópa. Betri vöxtur með lægra seltustigi skýrist einkum af auknu fóðuráti með lækkandi seltu.

Bleikjuframleiðendur geta nýtt þessar niðurstöður eftir því sem aðstæður á hverjum stað leyfa til þess að stjórna umhverfisþáttum á sem bestan hátt og auka afrakstur úr eldinu. Í verkefninu er sýnt hvernig tiltölulega litlar breytingar á umhverfisþáttum geta haft umtalsverð áhrif á vöxt og fóðurnýtingu og bætt framlegð við eldi á bleikju.

Skýrsla verkefnisstjóra: Skilgreining á kjöreldisaðstæðum í bleikjueldi.

Tilvísunarnúmer AVS: R 005-07Til baka Senda grein

header8


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica