Fréttir
  • Ferskfiskflok
    Ferskfiskflok
    Hitanema komið fyrir milli flaka

Bakteríusamfélög í fiski

24.6.2010

Nú er lokið verkefninu „Sameindafræðileg rannsókn á fjölbreytileika bakteríusamfélags í vinnsluumhverfi og skemmdarferli kældra fiskafurða“ sem styrkt var af AVS. Verkefnið hófst árið 2007 og síðan þá hefur þekking og skilningur á örverufræði fiskafurða og vinnsluumhverfis aukist til muna. Rannsóknarspurningar á þessu sviði eiga vel við í dag þegar mikil eftirspurn er í iðnaðinum eftir leiðum til að auka gæði og geymsluþol sjávarafurða en þekking á örverufræðilegum þáttum er lykillinn í þeirri vegferð.

Í verkefninu voru þróaðar aðferðir til að rannsaka heildarörveruflóru í sýnum sem gerði það kleift að skoða hvaða breytingum örveruflóra tekur við vinnslu og geymslu á fiskafurðum. Tvær fiskvinnslur voru skoðaðar m.t.t. bakteríuflóru í hráefni, vinnslulínum og afurðum. Í ljós kom fjölbreytt samfélag baktería þar sem þekktar skemmdarbakteríur voru í jafnan í háu hlutfalli í ásamt ýmsum öðrum tegundum. Örverutalningar sýndu fram á hátt magn baktería á yfirborðum vinnslulína á meðan vinnslu stendur þar sem algengt var að sjá fáa ríkjandi bakteríuhópa en einnig fjölmargar tegundir í minna mæli. Helstu hópar baktería sem fundust tilheyra Flavobacterium, Psychrobacter, Chryseobacter, Acinetobacter, Pseudoalteromonas og Photobacterium en tegundin Photobacterium phosphoreum var jafnan í hæsta hlutfallslegu magni.  Tegundir innan þessara ættkvísla eru þekktar fiskibakteríur sem lifa í roði og þörmum á lifandi fiski.  Þetta er fyrsta verkefnið sem vitað er um þar sem sameindalíffræðilegar aðferðir eru notaðar til að skanna bakteríuvistkerfi fiskvinnsluhúsa. 

Einnig voru breytingar á bakteríusamfélögum við geymslu ýmissa afurða rannsakaðar og má þar nefna ísaða ýsu, þorskhnakka, útvatnaðan saltfisk og skötu. Þorskur og ýsa eru dæmi um beinfiska á meðan skata er flokkast til brjóskfiska.  Ýmsir beinfiskar eru mikilvægir nytjastofnar og hafa því hlotið meiri athygli þegar kemur að rannsóknum á örverufræði þeirra og skemmdarferlum. Í þessum hluta er sýnt fram á og staðfest að Photobacterium phosphoreum er sú bakteríutegund sem oftar en ekki nær yfirhöndinni við geymslu á þorski og ýsu við mismunandi aðstæður.  Með notkun ræktunaraðferða og sameindalíffræðilegra greininga var framvindu örverusamfélaga við kæsingu á skötu lýst og sýnt fram á viðveru áður ólýstra bakteríutegunda í umtalsverðu magni í þessu sérstæða umhverfi.

Í verkefninu hefur því verið lagður til þekkingargrunnur á bakteríuvistkerfum við mismunandi aðstæður í fiskvinnslum og sjávarafurðum sem mun nýtast til frambúðar við rannsóknir og þróun á bættum vinnsluferlum og geymsluaðferðum á fiski.

Tilvísunarnúner AVS R 069-07Til baka Senda grein

header13


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica