Fréttir
  • Bolutang1
    Bóluþang1

Andoxunarefni í íslensku sjávarfangi

11.6.2010

Lífvirk efni eru skilgreind sem efni er geta haft heilsubætandi áhrif. Þau geta hugsanlega unnið gegn álagi í líkamanum (“oxidative stress”), háum blóðþrýstingi, háu kólestróli og bólgumyndun svo eitthvað sé nefnt. Náttúruleg andoxunarefni má nota sem heilsusamleg fæðubótarefni til að vinna gegn oxun í líkamanum en það má einnig nota þau í matvæli til að auka stöðugleika, bragðgæði og næringargildi þeirra.

Markmið AVS verkefnisins Gull í greipar Ægis (Novel antioxidants from Icelandic marine sources) var að skima fyrir andoxunarefnum úr íslensku sjávarfangi eins og þörungum og loðnu. Athyglin beindist sérstaklega að mögulegri notkun fjölfenóla úr þörungum sem náttúruleg andoxunarefni. Þetta var gert með því að skima fyrir andoxunarvirkni í afurðum úr þörungum með nokkrum tegundum af andoxunarprófum. Vænlegasta afurðin var valin til að rannsaka betur andoxunareiginleika hennar í fiskafurðum, þ.e. í þvegnu þorskvöðvakerfi, þorskpróteinkerfi og fiskiborgurum. Niðurstöður sýndu meðal annars að fjölfenól úr bóluþangi (Fucus vesiculosus) hafa mikla andoxandi eiginleika og möguleikar til notkunar þeirra í fæðubótarefni eða matvæli eru miklir.

Loðna er þekkt fyrir stöðugleika og langt geymsluþol gagnvart þránun og hugsanlega má einnig einangra andoxunarefni úr vatnsleysanlegum fasa loðnunnar til að nýta í verðmætar afurðir. Í þessu verkefni var unnið að því að rannsaka andoxunarvirkni vökvafasa loðnu og sýndu niðurstöður andoxandi áhrif, bæði með andoxunarprófum og við íblöndun í fiskafurðir.

Niðurstöður verkefnisins sýndu að íslenskt sjávarfang er mikilvæg uppspretta náttúrulegra andoxunarefna. Mikilvæg uppbygging þekkingar hefur átt sér stað í þessu verkefni og möguleikar á vinnslu verðmætra náttúruvara eru miklir en markaður fyrir slíkar vörur til notkunar í matvæli eða sem fæðubótarefni fer ört stækkandi á Vesturlöndum.

Skýrsla verkefnisins Gull í greipar Ægis

Tilvísunarnúmer AVS: R 023-07Til baka Senda grein

header4


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica