Fréttir
  • Agnar_Steinarsson
    Agnar Steinarsson
    að störfum í Berufirði

Góður vöxtur hjá íslenskum eldisþorski.

22.3.2010

Í eldisstöð Hafrannsóknastofnunarinnar á Stað við Grindavík er AVS-verkefnið "Vaxtargeta eldisþorsks" nú í fullum gangi. Í verkefninu er fylgst með vexti eldisþorsks í eldiskerjum allt frá klaki upp í sláturstærð og kannað hvort vöxtur á lirfu- og ungseiðastigi hafi marktæk, varanleg áhrif á vaxtargetuna. Einnig er fylgst með vexti hraðvaxta eldisseiða í sjókví HB-Granda á Berufirði.

Nú þegar fylgst hefur verið með fiskinum í tæp tvö ár er kominn í ljós mjög afgerandi munur í vexti samanburðarhópa. Þannig er fiskur sem vaninn var seint á þurrfóður (hópur A, meðaltal: 1,5 kg) rúmlega tvöfalt stærri í dag að meðaltali en fiskur sem vaninn var snemma (hópur D, meðaltal: 0,7 kg) (sjá mynd neðst á síðunni). Hópur A hefur í raun slegið öll fyrri íslensk vaxtarmet og virðist stefna í það að ná 3 kg meðalþyngd á aðeins 28 mánuðum frá klaki. Afföll í þessum hópi hafa aðeins verið rúm 10% og að mestu leyti vegna gæðaflokkunar.

Staerd_eldisthorsks
Samanburður við vaxtartölur úr þorskeldi færir niðurstöðurnar í víðara samhengi

Um er að ræða grófar vaxtartölur úr þorskeldi og hafa ber í huga að sjávarhitinn er auðvitað mismunandi á milli svæða. Pollaseiði í Noregi og Færeyjum eru í algjörum sérflokki en tilraunaseiðin í hópi A (rauð súla) hafa hins vegar vaxið mun betur en önnur eldisseiði. Íslensku eldisseiðin (bláu súlurnar) eru hér tiltölulega skammt á eftir norsku seiðunum, enda bara búin að vera eitt sumar í sjó á þessum tímapunkti (21 mánuður frá klaki). Athygli vekur að vöxturinn hefur minnkað milli árganga hjá Codfarmers sem er stærsta þorskeldisfyrirtæki Noregs. Kanadísku seiðin vaxa heldur hægar en þau íslensku en hópur D (snemmvanin seiði) rekur lestina. Þessi samanburður sýnir vel að í þorskeldi eru menn almennt að nýta aðeins brot af mögulegri vaxtargetu þorsksins.

Lengdarvoxtur
Lengdarvöxtur tilraunahópa

En hver er hin undirliggjandi ástæða fyrir þessari varanlegu vaxtarbælingu hjá eldisþorskinum? Svarið gæti verið að finna á lirfustigi þorsksins. Lengdarmælingar á lirfustigi benda eindregið til þess að hægur vöxtur á seinni hluta lirfustigsins (25-45 dögum frá klaki) geti haft óafturkræf áhrif á lengdarvöxt þorsksins til langs tíma litið. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að hægur vöxtur á lirfustigi getur haft varanleg áhrif á nýmyndun vöðvaþráða og þannig skert vaxtargetu fiska til lengri tíma. Á mynd 3 má sjá samanburð á lengdarvexti hópa A og D á lirfustigi og þar sést að eftir svipaða byrjun þar sem lengdarvöxturinn vex með stærð hjá báðum hópunum, virðist skilja á milli hópanna eftir að hópur D er kominn alfarið á þurrfóður (1 sm lengd). Á þeim tímapunkti kemur brot í ferilinn og lengdarvöxturinn hjá hópi D nær eftir það aldrei sömu hæðum og hjá hópi A. Afleiðingin verður sú að sífellt dregur sundur með hópunum.

 Stor_og_litill_thorskur
 Síðvanið (efra) og snemmvanið þorskseiði í eldisstöðinni að Stað

Sumarið 2009 voru tæplega 1 þúsund ársgömul eldisseiði flutt með brunnbáti í sjókví HB-Granda á Berufirði. Seiðin voru þá tæplega 500 g að meðaltali og við vigtun í desember var meðalþyngdin orðin rúmlega 900 g. Vonir standa til þess að þessi fiskur muni ná u.þ.b. 2,7 kg meðalstærð í árslok 2010 og verða þá orðinn hæfur til slátrunar ári fyrr en fyrri árgangar í íslensku þorskeldi.

Niðurstöður þessa verkefnis sýna það að aðferðir við frumfóðrun eru algjörlega afgjörandi þáttur varðandi vaxtargetu og heilbrigði þorsksseiða. Jafnframt er mikilvægt að seiðin séu alin við kjöraðstæður allt fram að útsetningu í sjókvíar. Með því að framleiða gæðaseiði að hausti/vetri og ala þau við kjörhita fram að útsetningu í kvíar í sumarlok virðist vera fyllilega raunhæft að ná rúmlega 3 kg sláturstærð á 30-34 mánuðum frá klaki og spara sér þannig eitt ár í eldistíma frá því sem nú er algengt í íslensku þorskeldi.

Nánari upplýsingar veitir Agnar Steinarsson hjá Tilraunaeldisstöð Hafró að Stað í Grindavík.

Tilvísunarnúmer AVS: R 028-09

Til baka Senda grein

header19


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica