Fréttir
  • marglitta
    Brennihvelja
    Ljósm: Pálmi Dungal

Rannsóknir á brennihvelju á Íslandsmiðum

10.3.2010

Marglyttur hafa verið til margvíslegra vandræða í fiskeldi á undanförnum áratug, bæði á Íslandsmiðum og erlendis. Tugmilljóna tjón varð í fiskeldi í Mjóafirði út af brennihveljunni (Cyanea capillata).

Að haustlagi verða brennihveljurnar mjög stórar (>50 cm í þvermál) og brenniangar þeirra geta orðið yfir 10 metrar að lengd. Þessir angar eru þaktir stingfrumum sem dýrin nota við fæðuöflun. Stingfrumurnar særa hold dýra og láta frá sér eitursambönd sem lama þau. Við aðstæður sem einkennast af sterkum straumum geta hópar hvelja lent á fiskeldiskvíunum, slitnað í sundur á neti kvíanna en bitar af brenniöngum hveljanna lenda síðan á fiskinum og brenna hann, lama og jafnvel deyða hann. Hjá þeim fiski, sem eftir lifir, verður meiri sýkingarhætta út af brunasárum. Svona lagað gerðist í Mjóafirði síðla í ágúst og byrjun september árin 2001, 2002 og 2006. Skaði varð sérlega mikill árið 2006 þegar um 1000 tonn af laxi drapst eða varð að slátra ótímabært vegna sára sem marglyttan olli.

Í ljósi þessa m.a. hefur verið lögð áhersla á að afla nýrrar þekkingar um útbreiðslu og magn hvelja á Íslandsmiðum, þannig að unnt sé að meta áhættu af þessu og gera viðeigandi ráðstafanir. Á vegum Líffræðistofununar Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar hafa á undanförnum árum farið fram rannsóknir á brennihveljunni og öðru hlaupkenndu dýrasvifi í þeim tilgangi að varpa ljósi á lifnaðarhætti þessara dýra. Rannsóknirnar hafa verið styrktar af rannsóknasjóðnum AVS.

Tvær marglyttutegundir eru algengar á Íslandsmiðum, þ.e. bláglytta (Aurelia aurita) og brennihvelja (Cyanea capillata). Þéttleiki þeirra í yfirborðslögum var yfirleitt mestur frá júní til september. Smáhveljur voru ríkjandi fyrri hluta vaxtartímans en stórar hveljur, sem eru mestur skaðvaldur í fiskeldi, reyndust algengastar í ágúst. Fiskeldismenn þurfa því hafa sérstakan vara á síðsumars. Það tímabil sem bláglytta og brennihvelja eru sviflægar er styttra hér við land (maí-september/október) en á nálægum hafsvæðum. Því kunna vandamál tengd hveljufári að vera viðráðanlegri í fiskeldi hér samanborið við nágrannalöndin.

Útbreiðsla brennihvelju við Ísland hefur að líkindum breyst frá því um miðbik síðustu aldar þegar það var kannað síðast. Meginútbreiðslusvæðið hefur þannig færst norðar (frá Vestur-, Norður- og Austurlandi til Norður- og Austurlands).

Í Eyjafirði var kjörsvæði brennihvelju utar í firðinum en kjörsvæði bláglyttu og því meiri líkur á tjóni af völdum fyrrnefndu tegundarinnar tiltölulega utarlega í firðinum. Brennihveljur eru yfirleitt tiltölulega smáar og skaðlausar í fiskeldi út af Vestfjörðum. Þar eru að líkindum uppeldisstöðvar fyrir brennihvelju sem berst þaðan með straumum austur með Norðurlandi.

Ljóst er að magn brennihvelju og bláglyttu sveiflast ekki í sama takti. Því má fullyrða að mikið magn af bláglyttu snemma hausts sé ekki vísbending um mikið magn af brennihvelju síðar það sama haust. Á sama hátt er unnt að fullyrða að lítið magn af bláglyttu sé ekki trygging fyrir litlu magni brennihvelju sama haust.

Í ljósi þess hversu lengi angar brennihveljunnar eru virkir eftir að þeir eru skornir af hveljunni (> 3 vikur við tilraunaaðstæður) er ljóst að varnargirðingar, sem byggjast á því að slíta sundur hveljur, eru ekki raunhæfur kostur sem vörn gagnvart brennihvelju hérlendis.

Rannsóknirnar leiddu í ljós jákvæð tengsl á milli sjávarhita og þéttleika hvelja hér við land. Rannsóknir á nálægum hafsvæðum hafa leitt í ljós að hlýnun sjávar getur leitt til aukinnar tíðni hveljublóma. Telja verður líklegt að það sama gildi hér við land. Í ljósi mikilvægis hvelja í fæðuvistfræði hafsins og þess að hveljur geta verið skaðlegar í tengslum við fiskeldi er mikilvægt að halda áfram rannsóknum á hveljum hér við land. Á meðal atriða sem rannsaka þarf eru langtímabreytingar í magni og útbreiðslu í tengslum við umhverfisþætti, botnlægt stig lífsferilsins og erfðafræðirannsóknir.

Nánari upplýsingar veitir Jörundur Svavarsson (jorundur@hi.is; sími 5252610)

Skýrsla: Brennihvelja á Íslandsmiðum
Tilvísunarnúmer AVS: R 059-07

Til baka Senda grein

header16


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica