Fréttir
  • Medaflaskilja
    Meðaflaskilja
    Unnið við uppsetningu hjá Fjarðarneti

Meðaflaskiljur í flotvörpur

13.10.2009

Það er ekki auðhlaupið að því að þróa verkfæri í flotvörpu sem skilja á út meðafla frá kolmunna í svo stóru veiðarfæri sem flotvörpu. Rannsóknir hafa sýnt að með því að setja 55mm grindur fyrir framan poka í flotvörpu sleppur þorskur og ufsi stærri en 55cm og kolmunninn fer aftur í poka.

Vandamálið er að skiljurnar eru stórar og því efnismiklar sem veldur því að kostnaður er töluverður við gerð þeirra. Þegar við bætist að glíman við að fá þær til að endast meira en eitt tog þá eykst kostnaðurinn mikið. Því var styrkur frá AVS mikilvægur til að gera þetta verkefni mögulegt.

Markmið þessa AVS verkefnis sem heitir “Meðaflaskilja í flotvörpu”, var að þróa meðaflaskiljurnar þannig að þær næðu þeirri virkni sem þeim er ætlað. Þær þurfa að þola að fara upp á tromlu undir miklu álagi eða oft með afla á bilinu 200 – 500 tonn í poka. Fyrst var farið með skiljulíkön í tilraunatank og virkni þeirra athuguð. Að því loknu voru skiljur í fullri stærð gerðar og prófaðar í leiðangri Hafrannsóknarstofnunarinnar.  Skiljurnar voru myndaðar með myndatökubúnaði sem send var niður að vörpunum á til þess gerðum dragsleða.  Ýmsar mælingar voru einnig gerðar s.s. mat á tapi á kolmunna við notkun skiljanna og mæling á straumhraða fyrir framan og aftan skiljugrind.

Fyrstu niðurstöður sýndu að galli var á öllum skiljutegundum sem prófaðar voru.  Út frá myndum og mælingum voru allar skiljurnar þróaðar frekar og hafa í það minnsta tvær gerðir sýnt nokkuð góðan árangur og virðast endast sæmilega.  Síðasta fiskveiðiár var ekki hagstætt rannsókninni þar sem nánast engin veiði á kolmunna var í landhelgi Íslands.   Því hefur ekki fengist reynsla á endingu meðaflaskiljanna til lengri tíma né viðunandi reynsla á nýjustu gerðir sem þróaðar hafa verið.   Heilmikil þekking og skilningur á þeim kröftum sem verka á útbúnað sem þennan hefur þó safnast saman og menn verða því betur undir það búnir að leysa vandamál með meðafla í kolmunnaveiðum eða hliðstæðum veiðum í framtíðinni.

Tilvísunarnúmer AVS: R 036-07

Skýrsla verkefnisstjóra: Meðaflaskilja í flotvörpu

Til baka Senda grein

header4


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica