Fréttir
  • Griparmur
    Griparmur
    Valka ehf hefur fengið einkaleyfi fyrir griparminum

Notkun þjarka í fiskvinnslu

7.10.2009

Valka ehf og HB Grandi hf hafa undanfarin 2 ½ ár unnið að því að greina möguleika á því að auka framleiðni í fiskvinnslunni með nýtingu á þjörkum. Í verkefninu hefur sérstaklega verið horft til að sjálfvirknivæða einhæf röðunarstörf. Sérstaklega hefur verið skoðuð röðun inn á skurðarvélar og inn á lausfrysta.

Búið er að smíða tilraunabúnað sem notaður hefur verið við prófanir í fiskiðjuveri HB Granda í Reykjavík. Það sem hefur takmarkað notkun þjarka í fiskvinnslu til þessa er annars vegar að vatnsheldir þjarkar hafa ekki verið til á markaðnum og erfitt er að meðhöndla sleip og viðkvæm fiskstykki. Nú eru nokkrir framleiðendur farnir að framleiða vatnshelda þjarka og nýr griparmur hefur verið smíðaður með það að leiðarljósi að fara vel með fiskinn en jafnframt tryggja traust grip svo að unnt sé að leggja flökin eða bitana frá sér þannig að stykkin liggi alveg slétt. Ennfremur getur í sumum tilfellum verið mikilvægt að roðhliðin snúi niður eða upp á öllum stykkjunum og getur griparmurinn lagt stykkin frá sér á hvorn veginn sem er óháð því hvernig stykkið liggur þegar það er gripið. Búið er að fá einkaleyfi fyrir griparminum útgefið hér á landi.

Búið er að sýna fram á það að unnt er að nýta búnaðinn við röðun þar sem tryggt er að stykkin komi eitt og eitt á færibandi. Því er nú unnt t.a.m. að raða flakabitum sem koma frá niðurskurðarvél beint inn á lausfrysti eða flökum sem koma í fleiri en einni röð frá hraðsnyrtilínu í einfalda röð inn á skurðarvél.

     

flok_a_faeribandi
 Prófanir á griparminum hjá HB Granda hf

Nú er verið að vinna í að endurbæta tölvusjónina sem notuð er í verkefninu þannig að unnt sé að mata flök og flakabita sem koma á færibandi í hrúgum að þjarkinum. Tölvusjónin þarf þá að greina hversu mörg stykki eru í hrúgunni og meta vænlegustu staðina til að grípa í hrúguna til að tryggja að aðeins sé tekið eitt flak í einu úr hrúgunni. Starfsmaður Völku kláraði mastersverkefni nú í sumar við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn (DTU). Hann skoðaði tvær aðferðir til að greina hrúgur. Önnur byggist á svipuðum forsendum og dýptarskyn okkar með hjálp tveggja augna, eða rúmsjón (e. stereo vision). Notast er við tvær myndir af sama viðfangsefni, sem teknar eru frá mismunandi sjónarhorni. Munurinn á staðsetningu þekktra punkta á myndunum tveimur gefur til kynna fjarlægð þeirra frá myndavél. Almennt er notast við tvær myndavélar með föstu millibili, en í verkefninu var einungis ein myndavél notuð, og færsla viðfangsefnisins á færibandinu nýtt til að framkalla mismunandi sjónarhorn.

Hin aðferðin er byggir á því að beina leysigeislalínu á færiband og taka um leið mynd frá öðru sjónarhorni. Þegar viðfangsefni kemur undir leysigeislann færist ferillinn, séð frá myndavélinni. Út frá þessari færslu má útbúa þrívíddarmynd af fiskstykkjunum.

Báðar aðferðir voru útfærðar og prófaðar, og báðar skiluðu þær nothæfum þrívíddarmyndum. Í stuttu máli voru niðurstöðurnar þær að leysisaðferðin hentar betur fyrir þetta verkefni. Hún skilaði nákvæmari og stöðugri niðurstöðum, og hefur lægra flækjustig en hin aðferðin. Rúmsjónaraðferðin hentar betur þegar viðfangsefnið býr yfir fjölbreyttari útlitseiginleikum en raunin er með fiskstykki, og ef viðfangsefnið ljómar illa undir leysisljósinu, sem er alls ekki raunin í þessu tilviki. Ljóst er hins vegar að ekki er nægjanlegt að fá þrívíddarmynd af stykkjunum með leysi heldur verður einnig að leitast við að greina hvar stykki byrja og enda og verður notuð hefðbundin tölvusjón í það sem tekur mynd af fiskstykkjunum. Nú er vinna í gangi við að útfæra þessa aðferð frekar og verður hún svo prófuð ítarlega í kjölfarið og áreiðanleiki skynjunar metinn.

Að þessari vinnu lokinni verður leitast við að velja hentugt og arðsamt verkefni í einu af fiskiðjuverum HB Granda fyrir þessa nýju tækni.

AVS sjóðurinn styrkir þetta verkefni.

Tilvísunarnúmer AVS: R 025-07Til baka Senda grein

header3


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica