Fréttir
  • Bleikjuflok
    Bleikja í heilu og flök

Hollusta sjávarfangs

17.9.2009

Það fer ekkert á milli mála í huga okkar Íslendinga að fiskur og fiskafurðir er bráðholl næring, en það er samt mikilvægt að hafa mælingar og gögn sem sýna að svo sé. AVS sjóðurinn hefur styrkt mælingar á næringarefnum enda nauðsynlegt fyrir útflytjendur að hafa nýjar og áreiðanlegar upplýsingar við hendina.

AVS verkefnið „Næringargildi sjávarafurða“ er stöðugt að skila inn nýjum upplýsingum inn í íslenskan gagnagrunn um næringarefnainnihald matvæla. Þessar upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Matís ohf (www.matis.is) og einnig veitir Ólafur Reykdal hjá Matís nánari upplýsingar.

Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um gögn sem hafa verið að skila sér inn í gagnagrunninn:

Eldisfiskur

Mælingar voru gerðar á eldisbleikju frá helstu framleiðendum. Samsetning bleikjunnar var lítið breytileg eftir framleiðendum með þeirri undantekningu þó að bleikja sem alin var í frekar köldu vatni var fituminni (8% fita) en önnur bleikja (11-14% fita). Hlutfall hinna ýmsu fitusýra var aftur á móti mjög svipað í öllum sýnunum sem mæld voru. Um fjórðungur af fitusýrunum var fjölómettaður og helmingur einómettaðaur. Það má því ætla að bleikjan sem var til rannsóknar hafi verið alin á mjög svipuðu eða sama fóðrinu. Niðurstöðurnar benda til þess að framleiðendur ættu að geta náð stöðugum gæðum á bleikjunni en það er ekki síst mikilvægt fyrir útflutning. Eldislax á markaði á Íslandi reyndist hafa svipaða samsetningu og bleikjan. Prótein var þó um einu prósenti hærra í laxinum en bleikjan var ívið selenríkari.

Hrognkelsi næringarríkari en margur heldur

Hrognkelsi eru vannýtt og nú stunda nokkrir aðilar rannsóknir sem miða að aukinni nýtingu. Niðurstöður mælinga á næringarefnum í þeim fáu hrognkelsaafurðum sem eru nýttar til manneldis eru góðar fréttir fyrir þá sem vilja auka nýtingu hrognkelsanna. Auk hrogna hafa eftirfarandi manneldisafurðir verið efnagreindar: Sigin grásleppa (hrá og soðin), ferskur rauðmagi og rauðmagalifur. Það sem fyrst vekur athygli er að kvikasilfur í öllum þessum afurðum er með því lægsta sem greinist í sjávarafurðum. Selen var aftur á móti hátt og rauðmagalifur var selenríkasta sjávarafurðin sem var efnagreind. Fullorðinn karlmaður þarf aðeins að borða um 50 g af rauðmagalifur til að ná ráðlögðum dagskammti af seleni. Rauðmagi er með feitustu fiskum og er fituinnihald holdsins um 20%. Margir kannast við hve rauðmagafita er vel fljótandi enda er um fjórðungur hennar fjölómettaður og helmingur einómettaður. Sem sagt mjög holl fita.

Hrogn eru sérstök

Þorskhrogn, grásleppuhrogn og loðnuhrogn eru meðal hrognategunda sem hafa verið nýtt til manneldis. Mælingar á þessum hrognum sýna mun eftir tegundum en sumir efnisþættir eru þó líkir. Þorskhrogn eru próteinríkust og minnst vatn er í þeim. Nokkur munur er eftir veiðitíma og veiðislóð. Vatn í þorskhrognum reyndist á bilinu 68 til 76% og þegar vatnið er í lágmarki er próteinið í hámarki. Eitthvað er um að erlendir kaupendur geri kröfu um að vatnið fari ekki yfir 70%. Vatnsinnihald grásleppuhrogna og loðnuhrogna getur hins vegar náð 80%. Allar tegundir hrogna áttu það sameiginlegt að kvikasilfur mældist mjög lágt en selen hátt.

Tilvísunarnúmer AVS: R 060-08Til baka Senda grein

header11


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica