Fréttir
  • Fiskimjol
    Fiskimjöl

Arsen er ekki alltaf hættulegt

11.9.2009

Arsen í matvælum og fóðri getur verið hættulegt. Nýleg rannsókn unnin af Matís sýnir að 50-90% af arseni í fiskimjöli er hættulaust. Hjá Matís hefur undanfarið verið unnið að rannsóknarverkefni sem er styrkt af AVS og miðar að því að þróa efnagreiningaraðferðir sem geta greint á milli eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli

Rannsóknin hefur nú staðið yfir í eitt ár og hefur ný efnagreiningaraðferð verið þróuð sem mælir magn vatnsleysanlegra og óvatnsleysanlegra arsenefnasambanda. Niðurstöður sýna að nánast allt arsen í fiskimjöli sem er á vatnsleysanlegu formi er bundið í arsenóbetaníði, sem er hættulaust. Leiða má því líkur að því að allt að 90% af heildarstyrk arsens sé hættulaust.

Arsen, sem er vel þekkt bæði sem eiturefni og krabbameinsvaldandi efni, finnst frá náttúrunnar hendi í háum styrk í sjávarfangi. Arsen er aftur á móti bundið í mismunandi efnaformum (e. species), þar sem sum efnaformanna eru eitruð og skaðleg heilsu manna á meðan önnur eru hættulaus. Núverandi reglugerðir á hámarksgildi arsens í matvælum og fóðri í Evrópu taka eingöngu tillit til heildarstyrks arsens í fóðri, jafnvel þó allt að 50-90% af arseni í sjávarfangi sé hættulaust.

Í þessu rannsóknarverkefni hefur  heildarstyrkur arsens í mismunandi tegundum af fiskimjöli á mismunandi árstíðum verið mældur. Niðurtöður sýna að heildarstyrkurinn  er breytilegur milli tegunda og einnig hefur komið í ljós viss árstíðamunur í fiskimjöli af sömu tegund t.d. fyrir fiskimjöl sem framleitt er úr kolmunna. Frekari mælingar eru nauðsynlegar til að staðfesta  hvort einnig er munur á milli árstíða á síldar- og loðnumjöli.  Kolmunninn sker sig einnig frá loðnunni og síldinni að því leyti að heildarstyrkur hans reynist oft á mörkum leyfilegra hámarksgilda. Þar myndi endurskoðun reglugerða þar sem tekið væri tillit til styrks eitraðra og hættulausra efnaforma í stað heildarstyrks hafa mikið að segja þar sem stærstur hluti arsens í kolmunna hefur reynst vera á hættulausu efnaformi. Há gildi á heildararseni getur haft þau áhrif að kaupendur á fiskimjöli vilji rifta kaupsamningum eða semja um lækkað verð. Þróun efnagreiningaraðferða til að greina bæði eitruð og hættulaus efnaform arsens í fiskimjöli í stað heildarmagns líkt og gert er í dag er því mikilvægur þáttur í að verja hagsmuni einnar af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar og tryggja verðmæti íslensks fiskimjöls.

Rannsóknin er unnin í samstarfi  við Síldarvinnsluna hf. og Vinnslustöðina hf. og hlaut styrk frá AVS árið 2008.

Tilvísunarnúmer AVS: R 048-08Til baka Senda grein

header20


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica