Fréttir
  • bleikja
    Bleikja

Kjöreldishiti bleikju breytist með aldri og stærð fiska

26.8.2009

Eldi á bleikju hefur vaxið töluvert á undaförnum árum og búist er við enn frekari aukningu, enda sala gengið vel. Hægt er að hafa mikil áhrif á vöxt bleikjunnar með stjórnun umhverfisþátta en eldi í kerum á landi býður upp á möguleika á framleiðslustýringu með því að stjórna t.d. eldishita, seltustigi eða ljóslotu. Til þess að bæta samkeppnishæfni er mikilvægt að lágmarka kostnað við framleiðslu en umrætt AVS verkefni miðar að því.

Mismunandi lífsskeið bleikju kalla á ólíkt umhverfi ef hámarka á vöxt og fóðurnýtingu en um leið halda snemmbærum kynþroska í lágmarki. Seinni ár hefur þekking aukist á því hvernig kjörhiti breytist með aldri og stærð fiska. Almennt lækkar kjörhiti fyrir vöxt og fóðurnýtingu með aukinni stærð.

Þessir eiginleikar voru kannaðir hjá eldisbleikju og metinn ávinningur af því að beita svokölluðum ,,hitaþrepum” bæði á seiðastigi og í áframeldi. Niðurstöður gáfu til kynna verulegan ávinning af því að ala bleikju á seiðastigi við kjörhita, nálægt 15°C, ef markmið í eldi er að ala smærri bleikju til slátrunar, minni en 600g. Eftir 6 mánaða eldistíma var bleikja sem alin hafði verið á 15°C um 24% stærri en bleikja við 12°C og 43% stærri en bleikja við 9°C.

Verulega dró úr vexti þegar fiskur var fluttur niður um hitaþrep. Bleikja sem alin var við lægri eða millihitastig, 9 og 12C°, á seiðastigi og í áframeldi hafði hærri sláturþunga eftir 10 mánaða eldistíma heldur en bleikja sem alin var við hærra hitastig á seiðastigi. Hlutfall kynkirtla (GSI-index) við slátrun var jafnframt hærra fyrir fisk sem hafði verið alinn við hærra hitastig á seiðastigi.

Þessar niðurstöður gefa til kynna að ef markmið í eldi er að framleiða stærri bleikju, þyngri en 1 kg, er hagkvæmara að ala bleikjuna við hóflegan eða lægri eldishita (hér 9°C) á seiðastigi til þess að draga úr neikvæðum áhrifum snemmbærs kynþroska á síðari stigum eldis.

Í gangi er rannsóknarverkefni þar sem kannaðir eru möguleikar með að auka vöxt og draga úr ótímabærum kynþroska með því að beita mismunandi ljóslotu á seiðastigi. Þriðji umhverfisþátturinn sem unnið verður með í þessu verkefni er seltustig í eldi og áhrif á vöxt og fóðurnýtingu hjá bleikju.

Fyrirliggjandi niðurstöður úr þessu verkefni voru kynntar á alþjóðlegri bleikjuráðstefnu í Stirling fyrr í sumar (6th International Charr Symposium) auk þess sem unnið er að birtingu í ritrýndum tímaritum. Verkefnið er fjármagnað að stærstum hluta af AVS en einnig fékkst styrkur til verkefnisins frá Framleiðnisjóði lanbúnaðarins. Þáttakendur í verkefninu eru Íslandsbleikja, Hólaskóli, Akvaplan niva á Íslandi og Matís.

Tilvísunarnúmer AVS: R 005-07Til baka Senda grein

header6


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica