Fréttir
  • Rannsoknateymid_a_Keldum
    Rannsóknateymið á Keldum
    Ívar Örn Árnason MS-nemi, Sigríður Guðmundsdóttir verkefnisstjóri og Harpa Lind Björnsdóttir starfsmaður verkefnisins

Einföld aðferð til að greina nýrnaveikibakteríuna

21.8.2009

Sérfræðingar hjá Tilraunastöð Háskóla íslands í meinafræði að Keldum hafa þróað aðferð til að greina bút úr erfðaefni nýrnaveikibakteríunnar, sem er ódýrari og einfaldari en sambærilegar eldri aðferðir.

Nýrnaveiki í laxfiskum er langvinnur sjúkdómur sem lyf vinna ekki á og ekki er unnt að bólusetja gegn, auk þess sem hann er einn fárra bakteríusjúkdóma sem getur borist milli kynslóða innan hrogna. Þessi sjúkdómur hefur valdið miklu tjóni í gegnum tíðina. Sjúkdómurinn var löngum erfiður í greiningu þar sem ræktun bakteríunnar tekur margar vikur. Því er sérstaklega mikilvægt að hafa annars konar aðferðir til sjúkdómsgreininga, sem geta gefið skjótar niðurstöður.

AVS styrkir rannsóknir á bakteríunni Renibacterium salmoninarum, sem veldur nýrnaveiki í laxfiskum, en meginmarkmið verkefnisins eru að bæta greiningar á sýkingum með bakteríunni og auka þekkingu á smitleiðum og framvindu sjúkdómsins í einstaklingum og hjörðum íslenskra laxfiska.

Til þessa eru þróuð og prófuð mismunandi kjarnsýrugreiningarpróf sem byggja á s.k. PCR tækni. Rannsóknir eru gerðar á sýnum úr mismunadi hópum fiska þar sem eldri aðferðum af sama toga er beitt til samanburðar. Þá eru einnig gerð annars konar próf til samanburðar, einkum ELISA próf, sem er mest notað við skimun og greinir ónæmisvaka (prótein) bakteríunnar.

Búið er að hanna frá grunni s.k. sn-PCR próf sem greinir kjarnsýrur úr geni helsta sýkiþáttar bakteríunnar. Jafnframt voru prófaðar mismunandi aðferðir við meðhöndlun sýna og reyndist sérstakur pappír, sem brýtur niður frumur og varðveitir kjarnsýrur, vera mjög heppilegur. Með þessu móti hefur fengist fram greiningaraðferð sem er einfaldari og ódýrari en sambærilegar PCR aðferðir.

Nú er unnið að þróun svo kallaðs qRT-PCR sem bæta á greiningarhæfni og auka við upplýsingar um eðli sýkingarinnar. Fyrirhugaðar eru víðtækar prófanir á ýmsum sýnum úr fiski af ólíkum uppruna. Jafnframt verður hluti sýnanna prófaður á rannsóknastofu í Kanada til að fá víðtækari samanburð.

Rannsóknarniðurstöður hafa verið kynntar á fundum og ráðstefnum, hérlendis og erlendis. Hluti verkefnisins er jafnframt meistaraprófsverkefni Ívars Arnar Árnasonar.

Tilvísunarnúmer AVS: R 076-07Til baka Senda grein

header20


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica