Fréttir
  • Bóluþang
    Bóluþang

Gull í greipar Ægis

29.8.2008

Öllum er ljóst að sjávarfang er mikill og góður fæðukostur, sem inniheldur mörg mikilvæg efni sem styrkja og bæta heilsu manna. Á síðustu árum hafa svokölluð andoxunarefni hlotið verðskuldaða athygli og að sjálfsögðu er slík efni einnig að finna í íslensku sjávarfangi.

Oxun hefur áhrif á breytingar sem tengjast öldrun mannslíkamans, til dæmis veldur oxun breytingu á próteinum og fitusýrum. Í náttúrunni má finna ýmis andoxunarefni sem henta líkama okkar t.d. E-vítamín. Nýjar rannsóknir benda til að andoxunarefni í sjávarfangi upphaflega upprunin úr þörungum séu lykilþættir í heilnæmi fisks. Oxun getur einnig haft áhrif á gæði og stöðugleika matvæla.

Verkefnið Gull í greipar Ægis (Novel antioxidants from Icelandic marine sources), sem er styrkt af AVS sjóðnum, miðar að því að skima fyrir andoxunarefnum úr íslensku sjávarfangi eins og þörungum og loðnu.

Nú þegar hefur fyrsta vísindagreinin úr verkefninu verið send til birtingar í vísindatímariti en greinin fjallar um andoxunarvirkni íslenskra þörunga. Á síðasta ári var mörgum þörungategundum safnað, heildarmagn fjölfenóla ákvarðað og andoxunarvirkni metin með nokkrum andoxunarprófum (antioxidant assays). Brúnþörungunum bóluþangi, hrossaþara, marinkjarna, sagþangi og stórþara var safnað, einnig sölvum og fjörugrösum sem eru rauðþörungar og maríusvuntu sem er grænþörungur.

Þörungar innihalda fjölfenól sem hafa mikla lífvirkni meðal annars andoxunarvirkni. Reyndist mesta magn fjölfenóla vera í brúnþörungunum, sérstaklega í bóluþangi og mikil fylgni var á milli magns fjölfenóla og andoxunarvirkni þörunganna. Fyrstu vísbendingar sýna einnig að bóluþang hafi blóðþrýstingslækkandi áhrif (ACE- hindravirkni) en þetta þarf að skoða nánar. Ýmsar leiðir hafa verið prófaðar til að einangra þráahindrandi efni úr þörungunum, m.a. notaðar nokkrar tegundir ensíma.

Loðna er þekkt fyrir stöðugleika og langt geymsluþol gagnvart þránun og hugsanlega má einnig einangra andoxunarefni úr vatnsleysanlegum fasa loðnunnar til að nýta í verðmætar afurðir. Í þessu verkefni hefur verið unnið að því að efnagreina vökvafasa loðnu, útbúa mismunandi hydrolýsöt og þátta með ultra og nano filtrun til að kanna hvort peptíð með andoxunarvirkni fyrirfinnist í loðnu.

Næstu skref eru að hreinsa enn betur fjölfenólin úr þörungunum og skoða hvaða fjölfenól það eru sem hafa þráahindrandi eiginleika. Síðar verður kannað að bæta þeim í matvæli til að auka stöðugleika, bragðgæði og næringargildi.

Vinnsla á náttúrulegum andoxunarefnum til notkunar í matvæli stuðlar að auknum stöðugleika, bragðgæðum og næringargildi. Andoxunarefni úr sjávarfangi má einnig nýta sem íblöndunarefni í ýmsar heilsuvörur og markfæði sem er ört stækkandi markaður. Niðurstöður verkefnisins benda til að með nýtingu efna sem finnast í íslensku sjávarfangi verði svo sannarlega gull sótt í greipar Ægis.

Niðurstöður verkefnisins voru kynntar á The 5th Euro Fed Lipid Congress and 24th Symposium of the Nordic Lipidforum, í Gautaborg í Svíþjóð í september 2007.

Kynningarefni

Tilvísunarnúmer AVS: R 023-07Til baka Senda grein

header4


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica