Fréttir
  • Örverur í fiski
    Örverur í fiski

Bakteríur greindar á innan við 24 tímum

26.8.2008

Það er mikilvægt fyrir framleiðendur matvæla að fá niðurstöður um hvort óæskilegar bakteríur séu til staðar á sem skemmstum tíma, sérstaklega þegar geymslutími matvælanna er stuttur.

AVS sjóðurinn styrkir nú verkefni sem miðar að þróa aðferðir til að greina algenga sýkla sem finnast í matvælum á minna en 24 klukkustundum. Hefðbundnar greiningaraðferðir taka allt frá þremur og upp í sjö daga, og hafa þessar aðferðir verið óbreyttar í langan tíma. Þessar eldri aðferðir hafa reynst mjög traustar og áreiðanlegar og því hefur verið erfitt að koma nýjum aðferðum í notkun.

Sú aðferðafræði sem stuðst er við í þessu verkefni er byggð á real-time PCR en með þeirri tækni er hægt að nema hvort erfðaefni tiltekinnar bakteríu sé til staðar í sýninu eður ei. Það sem þessi aðferð hefur fram yfir hefðbundnu aðferðirnar er hraði, þar sem hægt er ná fram niðurstöðum á 5-24 klst., eftir því hvaða tegund á í hlut. Hins vegar hafa hefðbundu aðferðirnar hefðina með sér og því er líklegt að það taki nokkur ár þar til ný tækni mun leysa þær af hólmi.

Frá því verkfnið hófst hefur tekist að setja upp aðferðir til að greina eftirfarandi sýkla úr matvælasýnum: Salmonella, Campylobacter, Listeria monocytogenes og Vibrio parahaemolyticus.

Sýklar eru þó ekki einu bakteríurnar í matvælum sem eru óæskilegar því það eru einnig niðurbrotsefni annarra baktería sem leiða til þess að mætvæli skemmast. Þessar bakteríur má kalla skemmdarörverur en þær eru oftast nær skaðlausar heilsu manna, fyrir utan það að særa skynbragð neytenda! Geymsluaðferðir snúast því í öllum tilvikum um að halda vexti þessara örvera í skefjum.  Rannsóknir á þessum bakteríum í fiski hafa sýnt fram á hvaða bakteríutegundir eru þar helst að verki og með vitneskju um magn þeirra í fiskinum við framleiðslu eða geymslu má fá mat á gæðum afurðanna og jafnvel spá fyrir um geymsluþol þeirra.

Það hefur einnig verið markmið þessa verkefnis að þróa aðferðir til að magngreina skemmdarörverur í fiski með sömu tækni og lýst var hér að ofan.  Slíkar aðferðir er því hægt að nota ýmist til að spá fyrir um geymsluþol, til að meta ástand hráefnis og afurðar eða til að nota í innra gæðaeftirliti í fiskvinnslum.  Þær bakteríutegundir sem helst er beint spjótum að í þessu samhengi eru Pseudomonas tegundir og Photobacterium phosphoreum en sýnt hefur verið fram á skemmdarvirkni þeirra beggja í fiski við mismunandi geymsluskilyrði.

Stefnt er að því að í lok verkefnistímans verði þessar mælingar aðgengilegar í formi þjónustmælinga fyrir matvælaframleiðendur.

Tilvísunarnúmer AVS: R 046-07Til baka Senda grein

header15


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica