Fréttir
  • Protein rannsoknir
    Protein rannsóknir

Fiskprótein sem vopn gegn hjarta- og æðasjúkdómum

14.8.2008

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengir hér á landi eins og annars staðar í vestrænum ríkjum og ein helsta dánarorsökin. Hækkaður blóðþrýstingur er einn helsti áhættuþátturinn. Heilsusamleg áhrif ómega-3 fitusýra hafa lengi verið kunn, en í seinni tíð hefur athyglin einnig beinst í auknum mæli að fiskpróteinum.

Í rannsóknum á peptíðum unnum úr ýmsum matvælapróteinum hafa fundist peptíð með blóðþrýstingslækkandi eiginleika. Íslensk fiskprótein gætu hugsanlega orðið mikilvæg uppspretta slíkra peptíða sem nýta mætti til þróunar verðmætra fiskafurða og heilsufæðis. Hjá Matís er unnið að nokkrum verkefnum á þessu sviði og þar á meðal er verkefnið „Einangrun, hreinsun og rannsóknir á blóðþrýstinglækkandi peptíðum úr fiskpróteinum“ styrkt af AVS. Markmið verkefnisins er að rannsaka þessa virkni í fiskpeptíðum og einangra, hreinsa og skilgreina peptíð með blóðþrýstingslækkandi áhrif.

Verkefnið er til tveggja ára og á fyrra styrkári var aðaláherslan lögð á að setja upp nýjan tækjabúnað sem nauðsynlegur er fyrir verkefnið ásamt því að hefja einangrun og mælingar á peptíðum. Blóðþrýstingslækkandi áhrif voru mæld með því að fylgjast með virkni peptíða til að hindra virkni ensíms sem kallast ACE (Angiotensin converting enzyme) en það ensím tekur þátt í stjórnun blóðþrýstings í mannslíkamanum. Niðurstöður sýndu að minnstu peptíðin hafa mesta hindrunarvirkni og þar með hæfni til að lækka blóðþrýsting.

Skýrsla verkefnisins: Einangrun, hreinsun og rannsóknir á blóðþrýstinglækkandi peptíðum úr fiskpróteinum

Tilvísunarnúmer AVS: R 047-07

Til baka Senda grein

header6


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica