Fréttir
  • Sveinn Margeirsson
    Sveinn_Margeirsson

Doktor í vinnsluspá þorskafla

16.1.2008

Sveinn Margeirsson, deildarstjóri hjá Matís, ver doktorsverkefni sitt við verkfræðideild Háskóla Íslands næsta föstudag, 18. janúar. Verkefnið, sem nefnist Vinnsluspá þorskafla, fjallar um hvernig hægt er að hámarka afrakstur fiskveiða.

Markmið verkefnisins var að safna gögnum um þorskveiðar og vinnslu fjögurra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, greina þau á tölfræðilegan hátt og setja upp bestunarlíkön til að auðvelda stjórnun á veiðum og vinnslu þorsks á Íslandsmiðum.

Gögnum um flakanýtingu, los og hringorma í þorski var safnað frá 2002 til 2006. Allar þessar breytur hafa veruleg áhrif á hagnað af þorskveiðum og vinnslu.

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að afrakstur virðiskeðju þorsks geti verið aukinn með því að sækja þorskinn á ákveðin veiðisvæði og á ákveðnum tíma árs en niðurstöðurnar sýndu að flakanýting, los og hringormar í þorski eru m.a. háð veiðistaðsetningu og árstíma.

AVS sjóðurinn hefur styrkt þessi verkefni sem Sveinn hefur verið að vinna að á undanförnum árum, en þessi verkefni eru “Spálíkan fyrir þorskvinnslu” (R 020-03) og “Verkunarspá - Tengsl hráefnisgæða við vinnslu- og verkunarnýtingu þorskafurða” (R 030-04).

Þessi tímamót Sveins eru gott dæmi um hvernig AVS sjóðurinn tekur þátt í að efla þekkingu innan sjávarútvegsins um leið og nýir og velmenntaðir sérfræðingar verða til í íslenskum sjávarútvegi.


Nánari upplýsingar um doktorsvörn Sveins er að finna hér.Til baka Senda grein

header2


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica