Fréttir
  • ísaður fiskur
    Ísaður fiskur

Aukið verðmæti þorskafla

28.8.2007

Eftir að fiskur hefur verið veiddur rýrnar hann um borð í fiskiskipum og tapar ferskleika. Þessi rýrnun minnkar vinnslumögleika og nýtingu á flökum fisksins.

AVS hefur styrkt nokkur verkefni þar sem verið er að rannsaka þætti við veiðar og vinnslu þorsks og hafa áhrif á verðmætin. Þessi verkefni hafa að hluta til tengst mastersnámi nemenda við Háskóla Íslands, en þriðji nemandinn Guðbjörg H. Guðmundsdóttir lauk nýlega meistaraverkefni sínu við Véla- og iðnaðarverkfræðideild HÍ og er þetta enn eitt dæmið um hvernig AVS sjóðurinn stuðlar að auknu samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja, Háskóla og rannsóknafyrirtækja.

Markmið verkefnis Guðbjargar var að hanna hugbúnað sem sjávarútvegsfyrirtæki geta nýtt til aðstoðar við ákvarðanatöku. Möguleikinn á að nýta líkanið er sýndur með því að beita líkaninu á íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki. Áhrif lengdar veiðiferða á rýrnun var kannað auk annarra áhrifaþátta. Eftirspurn eftir ferskum fiski hefur aukist síðastliðin ár. Eins og vel er þekkt rýrna gæði fisks sem hráefni í ferskar vörur fljótlega eftir að hann hefur verið veiddur. Góð meðferð aflans hefur mikla þýðingu í þessum efnum en verðmætarýrnun með aldri hráefnis er þó óumflýjanleg.

Það er því mikilvægt að aflanum sé landað tímanlega til að hægt sé að nýta hann betur. Ennfremur að tekið sé tillit til vinnslunnar við skipulagningu útgerðar þannig að vinnslan geti unnið fiskinn jafnóðum og komið honum ferskum á markað.

Verkefni Guðbjargar fólst í því að raða skipakomum útgerðarfyrirtækis þannig að samanlagður hagnaður veiða og vinnslu væri hámarkaður. Stærðfræðilíkan fyrir daglegar siglingar fiskiskipa og framleiðslu í fiskvinnslu var sett fram og tekið tillit til verðmætarýrnunar vegna aldurs hráefnis.  Á meðal annarra þátta sem teknir voru í líkanið voru birgðastaða vinnslu, væntur afli og flæði í vinnslu.

Niðurstaða Guðbjargar var að miklu máli skipti að taka rýrnun hráefnisins inn í reikninginn þegar áætlun fyrir veiðar og landanir fiskiskipa var útbúin.  Líkanið miðaði almennt við styttri úthaldstíma ef rýrnunin var tekin með í reikninginn.  Líkanið er ætlað til aðstoðar við ákvarðanatöku í sjávarútveginum, líkt og meginmarkmið verkefnisins Verkunarspá - Tengsl hráefnisgæða við vinnslu- og verkunarnýtingu þorskafurða. 

Leiðbeinendur Guðbjargar voru Páll Jensson hjá Verkfræðideild HÍ og Sveinn Margeirsson hjá Matís.

Tilvísunarnúmer AVS: R 030-04

Til baka Senda grein

header19


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica