Fréttir
  • Þorsklifrur
    Þorsklifrur
    www.larvalbase.org

Ástand þorsklifra í eldi metið

29.5.2007

Á síðastliðnu ári styrkti AVS sjóðurinn smáverkefni, sem fjallar um leit að nýjum prótein lífmerkjum í þorsklirfum með hjálp próteinmengjagreininga. Viðbrögð þorsklirfa við fóðrun með ufsapeptíðum, sem metin voru út frá mismun í próteintjáningu meðhöndlaðra og ómeðhöndlaðra lirfusýna, voru rannsökuð

Niðurstöðurnar sýndu að 53 prótein í meðhöndluðum lirfum eru tjáð í marktækt (P≤0.05) meira eða minn magni en í samanburðarhópi. Markmið verkefnisins var að nota massagreiningar einstakra próteindepla af geljunum til að segja fyrir um hvaða prótein þetta eru. Með því gætu fengist mikilvægar upplýsingar um viðbrögð þorsklirfa við “jákvæðum” umhverfisþáttum á borð við peptíð. Jafnframt var talið líklegt að unnt yrði að nota nokkur próteinanna, sem lífmerki til að meta ástand lirfa í eldi en í dag er skortur á slíkum próteinum.

Af þeim 53 deplum sem tjáðir voru í marktækt minna eða meira magni voru 23 deplar sem sýndu svipaðar breytingar í öllum endurtekningunum og voru þeir sneiddir út úr tvívíðu rafdráttargeli til massagreininga. Ellefu próteindeplar gáfu peptíðmassaróf sem unnt var að nýta við leit að skilgreindum fiskpróteinum í gagnabönkum og náðist að kennigreina 4 þessara próteina. V-ATPasi, keratín og himnubundið flutningsprótein voru tjáð í auknu magni en α-aktín í minna magni í meðhöndluðum lirfum. V-ATPasi er himnubundin ATP-háð prótónudæla sem er mikilvæg í næringarefnaupptöku en keratín eru m.a. byggingarefni í fiskroði.

Almennt hefur lítið verið birt um próteinmengi sjávarfiska í alþjóðlegum vísindaritum en verkefnið er hluti af stærra verkefni sem miðar að því að bæta þar úr. Rannsóknahópurinn hefur þegar kynnt hluta niðurstaðna úr próteinmengjagreiningum á þorsklirfum með fyrirlestrum og veggspjöldum á innlendum og erlendum ráðstefnum. Einnig er bókarkafli um rannsóknirnar í prentun.

Tilvísunarnúmer AVS: S 017-06Til baka Senda grein

header15


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica