Fréttir
  • Liftaekni_oerverurraekt
    Liftækni - örveruræktun

Lærum af þeim sem hafa náð langt

8.3.2007

Síðastliðið ár var unnið verkefni með styrk frá AVS rannsóknarsjóði um stöðu og tækifæri líftækni á Íslandi. Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja og AVS unnu verkefnið með sérfræðingunum Steven Dillingham og Rune Nilssen hjá Strategro og Einari Þór Bjarnasyni hjá Intellecta. Greind var staða og möguleikar líftæknigreinarinnar, styrkur hennar og veikleikar. Einnig var skoðað hvernig aðrar þjóðir hafa náð forskoti á þessu sviði.  

Steven C. Dillingham kynnti áhugaverðar niðurstöður verkefnis um líftækni á Íslandi á fundi Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja í síðustu viku. Steven telur að í líftækni felist miklir möguleikar fyrir Ísland. Á Íslandi eru tækifæri til að byggja upp öflugan líftækniklasa með samvinnu háskóla, atvinnulífs og stjórnvalda

Steven benti á að leiðin frá rannsóknum í líftækni til markaðssetningar vöru getur verið löng, oft 10 til 15 ár. Því er enn meiri þörf á þolinmóðu fjármagni innan líftækni en í öðrum hátæknigreinum. Þau lönd sem hafa náð forskoti á þessu sviði hafa sett fram markmið og skipulagðar stuðningsaðgerðir sem byggjast á styrk þeirra, s.s. vegna náttúrulegra auðlinda. Þar hafa verið byggðar upp nýjar rannsóknarstofnanir og háskólar sem leita eftir tækifærum á heimamarkaði og alþjóðamarkaði.

Steven fjallaði um fjármögnun líftæknifyrirtækja en þau þurfa nokkrar umferðir af fjármögnun, allt frá litlum upphafsfjárfestingum að stórum fjárfestingum frá fag- og áhættufjárfestum síðar meir. Hann nefndi að á Íslandi eru gloppur í fjármögnunarumhverfi tæknifyrirtækja því bæði skortir stuðning við sérlega efnileg fyrirtæki sem og þau sem glíma við að komast af stað og vilja sanna sig. En fjármögnun ein og sér dugar ekki til að tryggja árangur. Fjármögnun þarf að haldast í hendur við stuðning og gott skipulag. Miklu máli skiptir, bæði fyrir ung og rótgróin fyrirtæki, að hafa góðan aðgang að þjálfun og stuðningi við frumkvöðlastarfsemi, stefnumótun, sölu- og markaðsmál. Að mati Stevens er þörf á að  bæta ferli tækniyfirfærslu og vinnu við hugverkaréttindi í háskólum og rannsóknarstofnunum og lagði hann til að gefinn yrði kostur á handleiðslu um hvernig eigi að skapa viðskiptatækifæri.  

Steven hefur skoðað hvernig aðrar þjóðir hafa markvisst byggt upp líftækni og nefndi fjölmörg dæmi um leiðir sem hafa gefið góða raun í öðrum löndum.  Það þarf ekki að finna upp hjólið, hægt er að læra af þeim sem hafa náð langt.

Nálgast má úrdrátt úr skýrslunni hér.

En þeir sem óska eftir eintaki skýrslunnar er bent á að senda póst á avs@avs.isTil baka Senda grein

header15


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica