Fréttir

Vinnsluspá - verkunarspá

13.11.2006

Þann 3.október sl varði Runólfur Guðmundsson meistaraverkefni sitt, ,,Ákvarðanataka og bestun í sjávarútvegi”. Meistaraverkefni hans var hluti af öðru verkefni,,,Vinnsluspá þorskafla” sem styrkt er af AVS og Rannsóknasjóði Rannís. Markmiðið með meistaraverkefninu var að greina gögn sem safnað hefur verið sl. 5 ár um flakanýtingu, hringorma og los og sýna hvernig er hægt að nota þá þekkingu sem skapast hefur til að auka hagnað sjávarútvegsfyrirtækja.

Gagnasafnið innihélt tæplega 5.000 mælingar á þorski. Áhersla var lögð á að greina annars vegar áhrif veiðisvæðis og hins vegar árstíma á flakanýtingu, los og hringorma. Hafsvæðinu í kringum Ísland var skipt í 13 veiðisvæði og árinu í ársfjórðunga. Töluverður munur reyndist vera á flakanýtingu á milli einstakra veiðisvæða og tímabila. Sömu sögu er að segja af losi og hringormum.

Veiðisvæði Veiðisvæði
Hafsvæðinu skipt upp í 13 svæði (A1 til A13). Sjá má hafnirnar tvær sem skoðaðar voru, Grundarfjörð (A) og Hornafjörð (B). Staðsetning fiskvinnslunnar (F) er líka sýnd.  Meðalflakanýting [%] á þorski á tímabilinu des-feb (2001-2005)

Þróað var fjölvarnings flæðis bestunarlíkan (e. Multicommodity flow network). Bestunarlíkanið er línulegt og byggir á gagnagreiningunni. Þar sem gögn lágu ekki fyrir, var leitað til aðila sem vel þekkja til í íslenskum sjávarútvegi varðandi mat á þeim stikum sem á vantaði. Gerðar voru 120 mismunandi keyrslur á bestunarlíkaninu til að kanna áhrif ýmissa þátta á hagnað íslensks sjávarútvegsfyrirtækis.

      

Netlíkan 
 Netlíkan virðiskeðju íslensk sjávarútvegsfyrirtækis með fersk fisk útgerð og fiskvinnslu.


Sett var upp sértilvik fyrir sjávarútvegsfyrirtæki sem rekur eina fiskvinnslu á Grundarfirði og gerir út einn togbát. Skoðað var hvort hagkvæmt væri að senda bátinn á veiðar austur fyrir Ísland eða fiska fyrir vestan, nálægt fiskvinnslunni. Niðurstaðan var sú að hagkvæmara væri að veiða fiskinn nærri fiskvinnslunni, þrátt fyrir að niðurstöður gagnagreiningar hefðu t.a.m. sýnt að flakanýting var nokkru slakari á veiðisvæðunum fyrir vestan en fyrir austan land. Verðmæti einstakra veiðisvæða reyndist vera mismunandi fyrir fyrirtækið.

      

 Hagnaður
 Hagnaður ef einungis viðkomandi veiðisvæði sé opið. Fyrstu 13 súlurnar eru fyrir einstök veiðisvæði, veiðisvæði 12 er verðmætast en hagkvæmast er samt að hafa aðgang að þeim öllum eins og sést á súlunni þegar öll veiðisvæðin eru opin.


Áhrif kvótaleiguverðs á hagnað var skoðað. Ef leiguverðið er undir krítísku gildi er hægkvæmara að veiða fiskinn en að leigja frá sér kvótann. Afurðaverð hafði mikil áhrif á hagnað fyrirtækisins en áhrif afkasta í fiskvinnslunni voru ekki eins mikil. Reynt var að meta áhrif mismunandi aflasamsetningar. Hagnaður fyrirtækisins jókst hægt með auknum afla en féll mjög hratt ef aflinn minnkaði frá upprunalegu gildi. Með bestunarlíkaninu er hægt að fá mat á hversu mikið er hægt að greiða fyrir leigukvóta.

      

 Ráðstöfun afla
 Tillaga bestunarlíkansins að ráðstöfun afla á milli erlends markaðar, innlends markaðar og eigin fiskvinnslu. Eins og sjá má er þorski skipt í undirmál, vinnslufisk og stóran fisk.

Leiðbeinendur Runólfs voru þeir Páll Jensson, Verkfræðideild HÍ, Sigurjón Arason (Rf, Véla-og iðnaðarverkfræðiskor HÍ og matvælafræðiskor HÍ) og Sveinn Margeirsson, doktorsnemi í iðnaðarverkfræði og starfsmaður Rf.

Meistaraverkefni Runólfs hefur verið gefið út sem Rf-skýrsla og er hægt að nálgast hana hér.Til baka Senda grein

header6


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica