Fréttir
  • Lúðulirfur
    Lúðulifrur
    Ljósm.: Fiskey hf

Meira um forvarnir í fiskeldi

10.10.2006

Nýlega lauk þeim hluta verkefnisins Forvarnir í fiskeldi sem sneri að flokkun baktería, tilraunum með bætibakteríur og próteinmengjarannsóknum (B-hluti verkefnisins) en þetta var tveggja ára verkefni sem styrkt var af AVS sjóðnum og Nora (Nordisk Atlantsamarbeide) 2004-2006.

Mikil afföll verða á fyrstu stigum eldis sjávarfiska og sýna rannsóknir að mikilvægt sé að halda bakteríuvexti í lágmarki eða finna leiðir til að auka vöxt æskilegrar bakteríuflóru svo að auka megi hagkvæmni eldisins. Mögulegt er að stjórna samsetningu bakteríuflóru með því að bæta út í umhverfið bakteríum sem skapa umhverfi sem er lirfunum hagstætt, svokölluðum bætibakteríum, og er mikill áhugi fyrir notkun bætibaktería á þessum fyrstu stigum eldisins.

Afföll hafa einnig verið rakin til meltingargetu lirfa en hún er háð magni og virkni trypsína og sýna nýlegar íslenskar rannsóknir að trypsínvirkni er í lágmarki við upphaf fæðunáms. Einnig má auðvelda lirfunum meltingu með fóðri sem örvar seyti og virkni trypsíns í frumfóðrun og stuðla þannig að aukinni lifun í lirfueldinu. Markmið verkefnisins var að auka afkomu lúðu- og þorsklirfa úr startfóðrun með valinni blöndu bætibaktería sem hönnuð hefur verið fyrir eldiskerfi. Forkannanir á notkun blöndunnar bentu til að hún stuðlaði að auknu hlutfalli lúðulirfa sem þroskuðust eðlilega og því var áhugi fyrir að rannsaka nánar áhrif blöndunnar á fyrstu stigum lúðu- og þorskeldis. Einnig var þróuð aðferð til kortlagningar á mynstri heildarflóru baktería með sameindafræðilegum aðferðum en rannsóknir sýna að margar tegundir baktería úr köldu og næringarsnauðu umhverfi reynast illræktanlegar á næringarætum í rannsóknastofu og því mikilvægt að þróa aðferðir til rannsókna á heildarflóru baktería. Þekktar aðferðir próteinmengjagreininga voru auk þess aðlagaðar til rannsókna á áhrifum bætibaktería á próteintjáningu í þorsklirfum og er þar um að ræða nýja nálgun á rannsóknum á áhrifum umhverfisþátta í þorsklirfueldi.

Niðurstöður benda til þess að stór hluti baktería í eldinu sé ræktanlegur með þeim aðferðum sem notaðar voru en erlendar rannsóknir hafa jafnan sýnt að stór hluti bakteríuflóru í köldum og næringarsnauðum sjó ræktast illa í rannsóknarstofunni. Líklegt er talið að mikið framboð næringarefna í eldisvökva lirfa og fóðurdýra þeirra, valdi því að stærstur hluti bakteríuflóru reyndist ræktanlegur í þessu verkefni. Niðurstöður sýna einnig að fóðurdýr lirfa eru afar misjöfn að gæðum m.t.t. fjölda baktería en fóðurdýrum er bætt daglega út í eldiseiningar lirfa í startfóðrun. Gæði fóðurdýra eru því afar mikilvæg m.t.t. afkomu og gæða lirfa í startfóðrun og nauðsynlegt að finna leiðir til að stýra samsetningu bakteríuflórunnar eða halda bakteríufjölda í þeim í lágmarki. Meðhöndlun lirfa með bætibakteríum virtist ekki hafa afgerandi áhrif á afkomu en vísbendingar voru um að meðhöndlun leiddi til lækkunar á hlutfalli vanskapaðra lúðulirfa á kviðpokastigi. Niðurstöður benda þó jafnframt til þess að bakteríutegundir í þessari blöndu bætibaktería nái illa fótfestu í eldisumhverfinu á fyrstu stigum lúðueldis og geti því tæplega haft afgerandi áhrif á afkomu og gæði lirfa í startfóðrun. Endurtekinnar og viðvarandi meðhöndlunar virðist því þörf ef ná á árangri með þessari blöndu bætibaktería.Þorsklifrur

Niðurstöður rannsókna á fyrstu stigum þorskeldis sýndu aftur á móti að auka mátti lifun lirfa talsvert við meðhöndlun bæði lirfa og fóðurdýra þeirra með þessari blöndu bætibaktería. Niðurstöður úr próteinmengjagreiningum sýndu að meðhöndlun með bætibakteríum hafði afgerandi áhrif á próteintjáningu þorsklirfa samanborið við ómeðhöndlaðar lirfur þar sem fjöldi próteina var tjáður í marktækt meira eða minna magni samanborið við viðmiðunarhóp.

Niðurstöður verkefnisins sýna að meðhöndlun með bætibakteríum virtist hafa meiri áhrif á fyrstu stigum þorskeldis og gæti skýringa verið að leita í meira jafnvægi og almennt minni fjölda baktería á fyrstu stigum lúðueldis Fiskey ehf. Margra ára rannsóknir í samstarfi við Fiskey ehf. liggja þarna að baki og hefur reglubundið eftirlit með fjölda og samsetningu ræktanlegrar bakteríuflóru á hinum ýmsu stigum eldisins leitt til aukins jafnvægis og almennt betri gæða í framleiðslunni. Þekking á fóðri fyrir þorsk er takmörkuð og skortir á frekari rannsóknir á næringar- og fóðurþörf tegundarinnar. Rannsóknir eins og framkvæmdar voru í þessu verkefni eru því nauðsynlegar bæði hvað þróun fóðurs varðar sem og þróun aðferða við lirfueldið sjálft. Slíkar rannsóknir munu til lengri tíma litið geta átt þátt í að bæta verulega afkomu lirfa í sjávarfiskeldi Í framhaldinu er áhugi á því að rannsaka nánar áhrif þessarar tilteknu blöndu bætibaktería á fyrstu stigum þorskeldis, þar sem niðurstöður þessara tilrauna lofuðu góðu.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á aukinn vöxt fæðudýra þorsklirfa sem meðhöndluð eru með bætibakteríum og því áhugavert að skoða það nánar í framhaldinu. Í verkefninu var lagður grunnur að þróun nýrrar blöndu bætibaktería sem hentar sem forvörn í lúðu- eða þorskeldi við íslenskar aðstæður (lágt umhverfishitastig). Þær rannsóknir verða unnar í nýju verkefni, “Bætibakteríur í lúðueldi” sem Tækniþróunarsjóður styrkir (2006). Við val á bætibakteríum í verkefninu er horft til hamlandi áhrifa á vöxt óæskilegra og sýkingarvaldandi baktería auk þess sem stuðst er við þroska og afkomu meðhöndlaðra lirfa.

Bætibakteríurmar sem rannsakaðar verða eru einangraðar úr eldisumhverfi lirfa þar sem vöxtur, þroski og afkoma lirfa var mjög góð samanborið við í öðrum eldiseiningum og því líklegt að þessar tegundir hafi möguleika á að ná fótfestu í eldinu og geti haft áhrif á afkomu og vöxt lirfa umfram tegundir í blöndunni sem notuð var í því verkefni sem hér var að ljúka. Verkefnið hefur skilað margþættum árangri og varpað skýrara ljósi á vandamál tengd fyrstu stigum eldis sjávarfiska.

Verkefnið hefur því tvímælalaust stuðlað að aukinni hagkvæmni í eldi sjávarfiska á Íslandi en mikil afföll fylgja iðulega fyrstu stigum þessa eldis. Umhverfishitastig er lágt hér við land og vaxtartími því hlutfallslega lengri samanborið við nágrannaþjóðir okkar og samkeppnisaðila um eldi sjávartegunda fiska. Mikilvægt er því að leita leiða til þess að auka vöxt og afkomu á þessum fyrstu stigum eldisins.

Verkefnisstjóri hefur skilað skýrslu til sjóðsins.

Til baka Senda grein

header19


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica