Fréttir
  • Tilraunakví
    Eldiskví
    Tilraunakví í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp (Ljósm. Valdimar I. Gunnarsson)

Þorskseiðarannsóknir

28.9.2006

Um áramótin 2005/2006 lauk viðmiklu verkefni Samanburðar á eldi villtra þorskseiða og eldisseiða í landeldi á Nauteyri við Ísafjarðadjúp og áframeldi í kvíum á Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp” sem var samstarfsverkefni Stofnfisks hf., Hraðfrystihússins Gunnvarar, Útibús Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði og Háafells ehf.

Markmið tilraunarinnar var að gera samanburð á eldi villtra 0-grúppu þorskseiða veiddum í Ísafjarðadjúpi og 0-grúppu þorskseiða sem alin voru frá hrognastigi í Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunarinnar að Stað við Grindavík.

Verkefnið hófst haustið 2002 og lauk í desember 2005. Alinn var þorskur af tveimur árgöngum, 2002 og 2003. Aflað var grunnupplýsinga um breytileika í mikilvægum eiginleikum, s.s. vaxtarhraða, tíðni kynþroska, holdgæðum, lifrarstærð, lifun, fóðurstuðli o.fl.

Mælingar á eldisþorski

Einstaklingsmælingar á tilraunaþorski. Hér eru Theódór Kristjánsson frá Stofnfiski hf. og Unnar Reynisson frá Hafró á Ísafirði að störfum (ljósmynd Valdimar I. Gunnarson)

Niðurstöður verkefnisins sýna að það tekur um það bil 18 mánuði að ala 100-200 gramma þorskseiði í 2 kg, og um það bil 29 mánuði að ala þorskseiðin í 3,5 kg. Þorskur sem alinn er 29 mánuði gengur í gegnum tvö kynþroskatímabil. Niðurstöður þessa verkefnis sýna að 50%-70% eldisþorsks verður kynþroska á fyrri vetri í sjó (þorskur undir 1 kg), og nær 100% verður kynþroska á öðrum vetri í sjó (þorskur á milli 1-2 kg). Tjón af völdum seinna kynþroskatímabilsins er verulegt. Sýna niðurstöður verkefnisins að tap í lífmassa sé a.m.k. 10%. Fyrir 3,5 kg eldisþorsk er lítil þyngdaraukning síðustu 12 mánuðina. Þar kemur aðallega til hægur vöxtur yfir kaldasta tímann frá desember og fram í maí, auk taps í þyngd vegna hrygningar.

Þessar upplýsingar eru mikilvægar fyrir kynbætur í þorskeldi og sýna hvar beri að leggja kynbótamarkmið í framtíðinni. Miðað við reynslu úr laxeldi er þess að vænta að kynbætur geti skilað verulega hraðari vexti hjá eldisþorski í framtíðinni. Hraðari vöxtur, bætt heilbrigði eldisstofns og minnkun á tjóni af völdum kynþroska mun skila verulega aukinni arðsemi í þorskeldi í framtíðinni. Nú þegar hafa verið valdir 109 úrvalsþorskar, upprunnir úr Ísafjarðardjúpi, inn í grunnstofn þorskakynbóta á vegum IceCod ehf. Auk annars úrvalsþorsks sem safnað hefur verið á vegum IceCod ehf. leggur þetta grunninn að skipulegum þorskakynbótum í framtíðinni.

Verkefnisstjóri verkefnisins Theódór Kristjánsson hjá Stofnfiski hf hefur skilað inn ítarlegri skýrslu um verkefnið, en hún verður ekki birt fyrst um sinn. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Theódóri.

Tilvísunarnúmer AVS: R 050-04

Til baka Senda grein

header9


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica