Fréttir
  • Fiskeldi í Berufirði
    Fiskeldi í Berufirði

Kynbætur fyrir þorskeldi – myndun á IceCod-grunnstofni.

28.2.2006

AVS sjóðurinn hef styrkt verkefni á sviði kynbóta fyrir þorskeldi frá því sjóðurinn tók til starfa árið 2003. Kynbætur er mjög tímafrekt og kostnaðarsamt verkefni sem krefst mikils samstarfs fyritækja og ýmissa sérfræðinga. Á árinu 2003 var stofnað félag, Icecod á Íslandi ehf., um seiðaeldi og kynbætur fyrir þorskeldi.

Markmið félagsins er að framleiða kynbætt þorskeiði og tryggja kaupendum þeirra að það verði stöðugar framfarir í efnahagslega mikilvægum eiginleikum fyrir þorskeldi. Stefnt var að því að leggja grunn að hinum eiginlegu kynbótum með myndun á grunnstofni á 3-5 árum. Að félaginu standa Stofnfiskur hf., Hafrannsóknastofnunin, Prokaria hf., Fiskey ehf., og ÞÞL ehf.

Fyrstu skrefin í kynbótum fyrir fiskeldi er að safna erfðaefni fyrir grunnstofn kynbótanna. Við myndun grunnstofns er lögð áhersla á að viðhalda erfðabreytileika og lágmarka skyldleikaræktun. Efnahagsleg rök geta ráðið því hversu miklum erfðabreytileika er viðhaldið, t.d. gætu kynbótamarkmiðin breyst samfara nýjum áherslum kaupenda og þá verður kynbótastofn að hafa nægan erfðabreytileika svo mögulegt sé að bregðast við þessum nýju kröfum markaðarins.

Fiskeldi í BerufirðiÁ vegum IceCod ehf. hefur verið safnað erfðaefni frá afkomendum 698 þorskfjölskyldna frá 11 hrygningarsvæðum við Ísland. Stefnt er að því að nýta 350 fjölskylduhópa í grunnstofn fyrir kynbótaverkefnið. Alls hafa verið framleidd um 650.000 þorskseiði á vegum IceCod sem eru í eldi á nokkrum stöðum við Ísland. Áfram verður unnið að því að meta arfgengi mikilvægra eiginleika hjá eldisþorskinum sem myndar grunnstofninn, en á grundvelli slíks mats er hægt að spá fyrir um framfarir í komandi kynslóðum og um leið hvers konar kynbótakerfi muni skila hámarksárangri. Þetta útheimtir umfangsmikið tilraunaeldi. Þorskseiði sem klakin voru 2003, 2004 og 2005 eru komin í áframeldi á Berufirði og í Ísafjarðardjúpi. Samstarfsaðilar IceCod ehf. í áframeldistilraununum eru HB Grandi hf. og Hraðfrystihúsið Gunnvör hf..

Á grundvelli þessa þriggja ára rannsóknaverkefnis eru nú kynbætur fyrir þorskeldi formlega hafnar. Niðurstöðurnar sýna að á aðeins u.þ.b. 15 árum (5 kynslóðir) má stytta með kynbótum núverandi eldistíma til slátrunar um 12 mánuði fyrir íslenskt þorskeldi. Á sama tíma er gert ráð fyrir að á 4-5 kynslóðum hafi tíðni kynþroska hjá tveggja ára þorski verið lækkaður um helming. Vaxtarhraði annars vegar og tíðni kynþroska hins vegar eru þeir tveir þættir sem mest áhrif munu hafa á samkeppnishæfni íslensks þorskeldis.  Þegar hefur verið hafist handa við úrvalstilraun þar sem stefnt er að því að auka vaxtarhraða um 16% þannig að eftir jafn langan tíma í eldi verður þorskstofninn að meðaltali um 2,3 kg eftir val borið saman við 2,0 kg fyrir kynbótavalið.

Afurð verkefnisins, grunnstofn fyrir IceCod-kynbótaverkefnið, bendir eindregið til þess að kynbætur eigi eftir að bæta samkeppnishæfni í íslensku þorskeldi.

Verkefnið hefur verið kynnt í Fjölriti (nr. 111) Hafrannsóknarstofnunarinnar 2004, auk þess á ráðstefnum, bæði erlendis og innanlands.Til baka Senda grein

header3


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica