Fréttir
  • Bólusetning þorskseiðis
    Bólusetning þorskseiðis

Vetrarsár í laxfiski og þorski – vonir um bætt bóluefni

30.1.2006

Vetrarsár (winter ulcers) kallast bakteríusjúkdómur sem herjar á lax, regnbogasilung og þorsk og orsakast af sýkingu með Moritella viscosa. Sjúkdómurinn kemur upp í eldisfiski sem alinn er í köldum sjó við N-Atlantshaf og einkennist af sárum sem myndast á fiskunum og valda dauða og umtalsverðu verðmætatapi.

Lítið er vitað um sýkingarmátt M. viscosa en þau bóluefni sem framleidd hafa verið gegn bakteríunni hafa ekki veitt fullnægjandi vörn gegn sjúkdómnum.

AVS hefur styrkt verkefni þar sem unnið er að þróun bættra bóluefna gegn vetrarsárum með einangrun ensíms, svokallaðs peptíðasa, sem bakterían framleiðir og seytir út í umhverfi sitt.

Markmið verkefnisins eru að rannsaka og skilgreina eiginleika peptíðasans, kanna hlutverk hans sem einn af sýkiþáttum bakteríunnar og hugsanlega iðnaðarnýtingu hans. Ennfremur að kanna hvort bóluefni sem byggja á stökkbreyttum bakteríustofni, sem ekki framleiðir peptíðasann, sé virkara í myndun mótefnavarnar en samsvarandi bóluefni sem byggir á náttúrulegum bakteríustofni.

Unnið hefur verið að verkefninu í rúmt ár og hefur tekist að einangra peptíðasann, skilgreina virkni hans að hluta og raðgreina gen hans. Rannsóknirnar hafa leitt í ljós að peptíðasinn er 39 kDa að stærð, málmháður og er framleiddur þegar bakterían er í örum vexti. Hann tilheyrir thermolysin fjölskyldu peptíðasa og hefur mesta samsvörun við aðra peptíðasa sem eru þekktir sýkiþættir baktería.

Næstu skref verkefnisins eru að útbúa stökkbreyttan M. viscosa bakteríustofn, framleiða bóluefni sem byggja á honum og prófa í laxi og þorski. Virkni bóluefnisins verður borin saman við virkni hefðbundinna bóluefna.

Verkefnið er hluti af doktorsnámi Bryndísar Björnsdóttur sem stundar nám sitt við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum undir leiðsögn Bjarnheiðar K. Guðmundsdóttir, verkefnisstjóra.

Birtar hafa verið tvær greinar í Journal of Fish Diseases 2004 og 2005.

Yfirlit um verkefnið má sjá á veggspjaldi sem útbúið hefur verið um verkefnið.
Tilvísunarnúmer AVS R 006-04

Til baka Senda grein

header17


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica