Fréttir

Aukin þekking á heilnæmi íslenskrar bláskeljar - rannsóknir á sambandi eitraðra svifþörunga í sjó og uppsöfnun eiturs í bláskel.

Veerkefni R 010-16 um heilnæmi íslenskrar bláskeljar lokið

19.1.2018

Framkvæmd verkefnisins hófst vorið 2016 og stóð í eitt ár en úrvinnslu gagna og skýrslugerðum er nú lokið.Fjarðarskel ehf. hóf ræktun kræklings árið 2013 í Hvalfirði og forsvarsmenn fyrirtækisins komust fljótlega að því að erfitt var að áætla uppskerutíma í samanburði við önnur framleiðslulönd.

Nú er lokið verkefninu „Aukin þekking á heilnæmi íslenskrar bláskeljar – rannsóknir á sambandi eitraðra svifþörunga í sjó og uppsöfnun eiturs í bláskel“ – AVS verknr. R-010-16 sem fékk samþykki rannsóknasjóðsins 22. mars 2016. Framkvæmd verkefnisins hófst vorið 2016 og stóð í eitt ár en úrvinnslu gagna og skýrslugerðum er nú lokið.Fjarðarskel ehf. hóf ræktun kræklings árið 2013 í Hvalfirði og forsvarsmenn fyrirtækisins komust fljótlega að því að erfitt var að áætla uppskerutíma í samanburði við önnur framleiðslulönd. Þá hafa íslenskir skelræktendur þurft að senda holdsýni til greiningar á eitri erlendis þar sem tækni og búnaður til að gera slíkt hefur ekki verið til staðar á Íslandi, fyrr en nú.Matís hafði áður sent inn umsóknir til AVS og rannsakað bláskel og eitur í henni og skömmu áður en þetta verkefni var sett á laggirnar hafði Matís loks eignast rannsóknatæki sem gerði það mögulegt að mæla magn eiturs í skel. Mikil vinna var þó eftir við að koma tækinu í gagnið, til þess þurfti margar mælingar með samanburði við þekktar niðurstöður.Hafrannsóknastofnun hefur lengi vel mælt og talið fjölda eiturþörunga m.a. fyrir Matvælastofnun – MAST, í þeim tilgangi að vara við hugsanlegu eitri í kræklingi og að fá hugmynd um hvort nauðsynlegt væri að taka holdsýni áður en MAST gæti gefið út uppskeruleyfi til handa skelframleiðendum. Það þótti því tilvalið að þessir þrír aðilar, Fjarðarskel, Matís og Hafró myndu leiða saman hesta sína með því markmiði að að byggja upp tækni og þekkingu á Íslandi til að greina samband milli eitraðra svifþörunga í sjó og þörungaeiturs í bláskel. Skelrækt – samtök skelræktenda á Íslandi bættust svo í hópinn en á vettvangi félagsins þótti kjörið að kynna niðurstöðurnar fyrir skelræktendum.Í heild sinni gefa niðurstöður verkefnisins til kynna umfang og uppsöfnun þörungaeiturs í bláskel af völdum eitraðra svifþörunga í Hvalfirði. Svipaðar niðurstöður hafa fundist annars staðar í íslenskum fjörðum þó eiturefnamælingar í þeim séu mun strjálli en í þessum rannsóknum. Samanborið við niðurstöður greininga svifþörungasýna er hægt að sjá sterk tengsl á milli magns eitraðra tegunda svifþörunga og magns eiturs í skelsýnum. Þetta á bæði við um DSP og PSP eiturefnin.Þátttakendur verkefnisins þakka AVS kærlega fyrir stuðninginn við rannsóknaverkefnið og vonast til að íslenskir skelræktendur muni njóta góðs af í framtíðinni.

Til baka Senda grein

header18


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica