Fréttir

Sjálfvirk greining átusýna

Verkefninu "Sjálfvirk greining átusýna" V 012-14 er loki

26.5.2016

Markmið þess var að tryggja framhald á sjálfvirkri greiningu átusýna í Þekkingarsetri Suðurnesja í samstarfi við Hafrannsóknastofnun enda rannsóknir á dýrasvifi afar mikilvægur liður fjölmargra rannsóknaverkefna. Verkefnið skiptist í tvo verkþætti, annars vegar skönnun átusýna og hins vegar innslátt og greiningu lýsigagna.

Sjálfvirk greining átusýna

Verkefni 14 012-14: Atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum

Verkefnið „Sjálfvirk greining átusýna“ var unnið í Sandgerði, í samstarfi Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum, Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Suðvesturlands og Hafrannsóknastofnunar. Markmið þess var að tryggja framhald á sjálfvirkri greiningu átusýna í Þekkingarsetri Suðurnesja í samstarfi við Hafrannsóknastofnun enda rannsóknir á dýrasvifi afar mikilvægur liður fjölmargra rannsóknaverkefna. Verkefnið skiptist í tvo verkþætti, annars vegar skönnun átusýna og hins vegar innslátt og greiningu lýsigagna. Í fyrri verkþættinum fólst einnig undirbúningur átusýna og í kjölfarið skönnun þeirra í hágæða ljósmyndaskanna. Í seinni verkþættinum voru öll lýsigögn skráð nákvæmlega en þau eru nauðsynlegur undanfari þess að dýrin séu greind til tegunda eða hópa á sjálfvirkan hátt með ZooImage forritinu en með því er einnig hægt að mæla stærðir og lífmassa dýranna. Um 150 sýni voru unnin og skönnuð í verkefninu en þau voru tekin í vorleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar árin 2011 og 2012 allt í kringum Ísland.

Þegar allri úrvinnslu er lokið munu niðurstöðurnar nýtast í margvíslegum vísindalegum tilgangi en hinar stafrænu myndir sem koma úr skönnuninni eru í raun stafræn sýni sem auðvelt er að geyma og skoða aftur eða deila með öðrum. Til framtíðar munu niðurstöðurnar nýtast í tengslum við fjölmörg rannsóknaverkefni Hafrannsóknastofnunar, t.d. verkefni sem fjalla um áhrif veðurfars á átustofna (vorleiðangrar) og áhrif átu á vöxt, útbreiðslu og fæðugöngur uppsjávarstofna s.s. síldar, kolmunna og makríls.Aðrir umsóknaraðilar munu að líkindum nota niðurstöðurnar í tengslum við önnur rannsóknaverkefni, t.d. rannsóknir á lífríki sjávar og fæðu sjófugla, en almennt munu niðurstöðurnar standa til boða bæði hinu íslenska og erlenda rannsóknasamfélagi.

Ávinningur verkefnisins er því fólginn í ítarlegum upplýsingum um tegundasamsetningar, vöxt og þroska átutegunda á Íslandsmiðum. Verkefnið hefur jafnframt stuðlað að atvinnuþróun og nýsköpun í Sandgerði ásamt aukinni færni starfsmanna undir leiðsögn Hafrannsóknastofnunar. Verkefnið fól í sér þróun á nýrri tækni, þekkingu og þjónustu á Suðurnesjum en samfélagslegur ávinningur er þegar mikill með eflingu rannsóknastarfseminnar í Sandgerði í tengslum við styrkinn. Eitt stöðugildi líffræðings er þegar tryggt en eftir því sem starfsemin þróast og vex má gera ráð fyrir aukinni þörf á fleira starfsfólki.

Skýrslu um verkefnið má nálgast hér.

Til baka Senda grein

header9


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica