Fréttir

Framleiðsla á lífvirkum peptíðum úr fiskipróteinum og eiginleikar þeirra í dýrum

Verkefnið "Framleiðsla á lífvirkum peptíðum úr fiskipróteinum og eiginleikar þeirra í dýrum" R 083-10

29.10.2014

Markmið verkefnisins var að framleiða fiskpeptíð á tilraunaverksmiðjuskala og rannsaka lífvirkni þeirra í tilraunarottum.

Fréttatilkynning

Lokið er verkefninu „Framleiðsla á lífvirkum peptíðum úr fiskpróteinum og eiginleikar þeirra í dýrum“ sem unnið var af Matís og ArcticLAS með styrk frá AVS.

Hjarta og æðasjúkdómar eru algengir í hinum vestræna heimi og hafa verið ein algengasta dánarorsökin en hækkaður blóðþrýstingur er einn helsti áhættuþátturinn. Rannsóknir benda til að áhrif próteina á heilsu séu meiri en að afla nauðsynlegrar orku og næringar. Við niðurbrot á próteinum við meltingu eða annað niðurbrot myndast smærri efni, s.k. oligopeptíð. Þá verða amínósýruraðir, sem voru óvirkar innan próteinkeðjunnar, virkar þegar peptíðin eru “leyst úr læðingi”. Þessi peptíð gegna margþættum hlutverkum sem lífeðlisfræðilegir áhrifavaldar, t.d. hafa þau áhrif á blóðþrýsting, meltingu, oxunarferla og fleira í líkamanum og eru kölluð lífvirk efni. Það er því mögulegt að nota peptíð í heilsufæði og jafnvel lyf. Með því að nýta aukaafurðir úr fiskvinnslu til að framleiða lífvirk peptíð væri hægt að minnka hættuna á hjarta og æðasjúkdómum og auka um leið virði sjávarfangs.

Markmið verkefnisins var að framleiða fiskpeptíð á tilraunaverksmiðjuskala og rannsaka lífvirkni þeirra í tilraunarottum. Staðfesting á virkni in vivo er nauðsynleg fyrir árangursríka markaðssetningu afurðanna. Í verkefninu var þróuð framleiðsluaðferð sem gaf peptíð með mikla lífvirkni mælt í tilraunaglasi, in vitro. Ekki fengust afgerandi niðurstöður á blóðþrýstingslækkandi virkni í rottum og frekari rannsóknir því nauðsynlegar. Mikilvæg skref voru tekin í verkefninu til að geta hafið framleiðslu og markaðssetningu á lífvirkum afurðum úr aukahráefni fiskvinnslu.

Skýrslan er fyrst um sinn lokuð.

 


Til baka Senda grein

header8


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica