Fréttir

Skýrsla um "Áhrif fiskpróteinmeltu á þroska þorsklifra"

R 081-10

28.11.2012

Verkefnið “Áhrif fiskpróteinmeltu á þroska þorsklirfa“var samstarfsverkefni milli Matís ohf., Icepróteins ehf., Hafrannsóknastofnunarinnar og Háskólans á Akureyri. Skýrsluna má sjá hér.

Verkefnið “Áhrif fiskpróteinmeltu á þroska þorsklirfa“ var samstarfsverkefni milli Matís ohf., Icepróteins ehf., Hafrannsóknastofnunarinnar og Háskólans á Akureyri. Eitt helsta vandamálið við eldi á þorski eru mikil afföll á fyrstu stigum þroskunar og gæði seiða. Ekki er fyllilega vitað hvað er að valda þessu en niðurstöður úr verkefninu „Lífvirk efni við lirfueldi lúðu og þorsks“ sem styrkt var af AVS sjóðnum 2007-2008 bentu til að hægt væri að auka gæði seiða með því að auðga fæðudýr með ufsapróteinmeltu. Markmið þessa verkefnis var að auka skilning á áhrifum auðgunar fæðudýra með ufsapróteinmeltu á lífefnaferla í snemmþroska þorsk með því að beita myndgreiningaraðferðum og próteinmengjagreiningu. Vöxtur lirfanna og útlitsgallar voru einnig metnir. Niðurstöður úr lífvirkni-rannsóknum á ufsapróteinmeltunni sýndu fram á andoxunarvirkni, bæði í kemísku módeli sem og frumu módeli. Jafnframt mældust áhrif á bólgusvörun í angafrumu módeli. Engin áhrif mældust á stofna þekktra sýkingarvaldandi baktería í fiski sem notaðir voru sem prófstofnar við rannsókn bakteríuhamlandi áhrifa ufsapróteinmeltunnar. Afkoma lirfa í eldistilraun var frekar lág þó svo að vaxtarhraði væri alveg viðunandi og lítið væri um alvarlega útlitsgalla. Meðhöndlun með ufsapróteinmeltu reyndist ekki hafa áhrif á afkomu eða galla lirfa þó svo að vísbendingar væru um örvun framleiðslu IgM og lysozyme í meltingarvegi og á yfirborði lirfa. Próteinmengjagreiningar voru gerðar á meltingarvegi til að skoða áhrif á tjáningu mikilvægra próteina. Próteinmengjagreiningar sýndu að meðhöndlun hafði væg áhrif á aukna tjáningu frumugrindapróteina, próteina sem taka þátt í streitu auk efnaskiptaensímsins ATP-synthasa sem benda til aukins áreitis á meðhöndlaðar lirfur. Út frá niðurstöðunum er hægt að álykta að notkun ufsapróteinmeltu geti bætt og jafnað gæði seiða ef gæði eggja er ábótavant en þegar notuð eru egg af góðum gæðum eins og í þessu verkefni þá hafi meðhöndlun ekki áhrif. Niðurstöður rannsóknanna eru undirstaða í meistararitgerð Hugrúnar Lísu Heimisdóttur nemanda við Háskólann á Akureyri en einnig var birtur bókakafli um notkun próteinmengjagreininga við rannsóknir á áhrifum umhverfisþátta á þorsklirfur. Annar afrakstur verkefnisins er Matís skýrsla (Skýrsla Matís 18-12) sem og fjórar kynningar á ráðstefnum innanlands og utan.

Til baka Senda grein

header6


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica