Fréttir
  • Islensk_bleikja
    Íslensk bleikja

Umtalsverð lækkun fóðurkostnaðar

22.12.2009

Niðurstöður umfangsmikilla fóðurtilrauna á bleikju sýna að lækka má fóðurkostnað umtalsvert án þess að dragi úr vexti fisksins. Próteinþörfin virðist lækka hratt eftir að smáseiðastigi sleppir.

Próteinríkt hráefni (fiskimjöl) er einn helsti kostnaðarliðurinn í bleikjufóðri og því hefur breyting á hlutfalli próteinsinnihalds mikil áhrif á kostnað fóðursins. Lækkað próteinhlutfall gefur einnig aukin tækifæri til að nota ódýrara hráefni en fiskimjöl og er því grundvöllur fyrir frekari hagræðingu. Góð nýting próteins til vaxtar er einnig jákvæð frá umhverfislegu sjónarmiði því útskilnaður köfnunarefnis minnkar og vatnsgæði í eldisrýminu batna.

Í tilrauninni voru könnuð áhrif 6 jafn orkuríkra fóðurgerða, með próteininnihaldi frá 34,7 -49,2% á vöxt og aðra vaxtartengda þætti hjá bleikju, allt frá frumfóðurstigi fram yfir 1 kg þyngd. Jafnframt var kannað hvort próteinhlutfall í fóðri hefði áhrif á gæði fisksins sem matvöru.

Mikilvægustu niðurstöður verkefnisins eru að bleikja virðist vaxa álíka vel á 34,7% próteini í fóðri og á 49,2% próteini, eftir að um það bil 90 g þyngd er náð. Algengasta próteinhlutfall í fóðri við matfiskeldi á bleikju hér á landi hefur verið um 42,5%. Því er ljóst að tækifæri er til að minnka próteinið í fóðrinu verulega og lækka þar með fóðurkostnaðinn umtalsvert. Miðað við núverandi verð (haust 2009) á fóðurhráefnum má gera ráð fyrir að hráefnaverð lækki um 1.4% fyrir hverja prósenteiningu sem prótein er lækkað í fóðri. Þannig má reikna með að niðurstöður verkefnisins geti leitt a.m.k. til um 11% lækkunar á hráefniskostnaði með því að lækka próteinhlutfall fyrir bleikju frá 100 gramma þyngd úr 42.5% í 34.7%.

Miðað við núverandi bleikjuframleiðslu gætu sparast nokkrir milljónatugir árlega í fóðurkostnað. Niðurstöðurnar benda til að lágmarks próteinþörf bleikju í matfiskstærð kunni að liggja enn neðar en lægsta próteinhlutfall í fóðri var í þessu verkefni. Lægra próteinhlutfall í fóðri virtist ekki hafa sérstök áhrif á gæði bleikjunnar.

Nánari upplýsingar gefur Ólafur Sigurgeirsson hjá Hólaskóla (olisig(hjá)holar.is

Skýrsla verkefnisstjóra: Próteinþörf bleikju

Tilvísunarnúmer AVS: R 040-07

Til baka Senda grein

header14


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica