Fréttir
  • Sild
    Sild

Ný aðferð til að greina sýkingu í síld og öðrum fiskum

10.12.2009

Sérfræðingum Matís hefur tekist að þróa fljótvirka og ábyggilega erfðagreiningaraðferð til að greina Ichthyophonus hoferi sýkilinn í síld og öðrum fiskum.

Aðferðin byggir á svokallaðri PCR greiningaraðferð sem felst í mögnun á einkennandi hluta erfðaefnis sýkilsins. Reynd voru fjögur afbrigði af greiningaraðferðum; raðgreiningum þar sem DNA basaröð er greind, hefðbundið og einnig raun tíma PCR þar sem flúrmerktur DNA bútur er magnaður og að síðustu lengdargreiningu merkigensins. Besta aðferðin reyndist vera lengdargreining og má bæði nota hana til að greina sýkingu í blóðríkum líffærum eins og hjarta og nýrum en einnig í sýktu holdi.

Í framtíðinni verður hægt að nota aðferðina til frekari rannsókna á sýkingunni og varpa ljósi á hversu umfangsmikil og útbeidd sýkingin er. Spennandi verkefni væri að reyna að greina uppruna sýkingarinnar með því að beita aðferðinni við skönnun á mismunandi fæðugerðum síldarinnar. Einnig er spennandi að rannsaka hvort fleiri fisktegundir við Íslandsstrendur séu sýktar af sama I. hoferi stofni en síld og skarkoli.

Haustið 2008 varð ljóst að íslenska sumargotssíldin væri mikið sýkt af einfrumungnum Ichthyophonus hoferi. Upp úr því var farið í umfangsmiklar rannsóknir til að meta tíðni sýkingarinnar með sérstökum rannsóknarleiðöngrum hjá Hafrannsóknarstofnuninni og með rannsóknum á veiðiafla síldveiðiskipa. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna veturinn 2008/09 og sumarið 2009 þá er sýkingin enn mjög mikil. Sýkingin nær yfir allt útbreiðslusvæði síldarinnar og er sýkingarhlutfallið 34-70% í ungsíld en Skjálfandi er eini staðurinn þar sem smásíld er ekki sýkt. Niðurstöður rannsókna á hrygningarslóð stofnsins rétt fyrir hrygningu í júlí 2009 sýndu engin merki þess að sýkingin væri á undanhaldi (Hafrannsóknastofnunin 2009). Þetta er því faraldur en ekki er enn þekkt hve alvarlegar afleiðingarnar verða. Sýkt síld drepst eftir um 100 daga (að hámarki 6 mánuðir) og því eru afföllin í stofninum mjög mikil (Óskarsson and Pálsson 2008).

Nánari upplýsingar gefur Sigríður Hjörleifsdóttir hjá Matís ohf (sigridur.hjorleifsdottir(at)matis.is)

Tilvísunarnúmer AVS: S 015-09Til baka Senda grein

header10


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica