Fréttir
  • Valka_merki
    Valka_merki

Bylting í pökkun og flokkun á ferskum laxaflökum

Valka haslar sér völl í þjónustu við laxeldi í Noregi

30.10.2009

Valka ehf, sem sérhæfir sig í þróun og markaðssetningu á tækjabúnaði og hugbúnaði fyrir fiskiðnaðinn, hefur afhent og sett upp nýjan flokkara fyrir flokkun og pökkun á laxaflökum til Vikenco AS í Noregi.

Tækið sem Valka ehf hefur smiða er fyrsti flokkari sinnar tegundar í heiminum, og eykur hann mjög sjálfvirkni og hagkvæmni í pökkun.

Vikenco AS er leiðandi fyrirtæki í norskum laxaiðnaði og tilheyrir hinni vaxandi fyrirtækjasamsteypu RaumaGuppen AS. Nýji flokkarinn getur pakkað laxaflökum á sjálfvirkan hátt í kassa og uppfyllt um leið allar pökkunarkröfur sem kröfuharðir kaupendur í Bandaríkjunum og víðar gera til pökkunarinnar. „RapidAligner flokkarinn er mjög mikilvægur fyrir okkur til að byggja upp Vikenco gæði á Bandaríkjamarkaði”, segir Jonny Småge framkvæmdastjóri hjá Vikenco.

Norskur laxaiðnaður hefur verið að vaxandi á undanförnum árum og hefur eftirspurn eftir laxaflökum, einkum frá Bandaríkjamarkaði, verið að aukast mikið. Mjög mikilvægt er að auka skilvirkni í vinnslu og pökkun á flökum til að gera þá framleiðslu arðsamari. „Til að viðhalda jöfnum gæðum verðum við að tryggja að flokkunin sé nákvæm, þyngdin í sérhverjum kassa sé nákvæm, að flökum sé raðað snyrtilega í kassana og að meðhöndlunin á flökunum sé góð en RapidAligner flokkarinn tryggir einmitt allt þetta”, segir Jonny Småge og bætir við „Röðunin á flökunum og á plastörkunum milli laga er einstaklega jöfn og góð sem tryggir að viðskiptavinir okkar fá vöru sem lítur einstaklega vel út”.

Vikenco_RapidAligner_interleave_400 vikenco_interleave_box_400

Fjölhæfara tæki en áður hefur sést

Helsta virkni flokkarans sem ekki hefur sést áður við pökkun á laxaflökum er:

  • Meiri sjálfvirkni þar sem flokkarinn raðar flökum al-sjálfvirkt í kassa.
  • Fiski er unnt að raða í lög í kassa á margvíslega vegu og setja sjálfvirkt plastfilmu á milli laga. Slík röðun, kölluð millilagning, er annars mjög vinnuaflsfrek.
  • Sjálfvirk mötun á kössum inn á flokkarann.

Ávinningur kaupandans er einkum nákvæm flokkun, lágmarks yfirvigt, betri gæði þar sem öllum flökum er pakkað strax og hráefnismeðhöndlun er einstaklega góð í flokkaranum auk þess að spara handtök.

Samstarf við gervigreindarsetur HR

Auk þeirrar virkni, sem áður er getið, getur flokkarinn lágmarkað yfirvigt í pakkningunum með því að velja flök af hentugustu stærð saman í kassa. Valka hefur unnið í samvinnu við gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík við að þróa mjög fullkomið og sveigjanlegt samvalsalgrím sem tekur tillit til pökkunarkrafna í lög og sérstakra pökkunaraðferða sem notaðar eru í laxavinnslu. RapidAligner flokkarinn var upphaflega hannaður fyrir hvítfisk flök og flakabita í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og Nýfisk og með fjárhagslegum stuðningi AVS-sjóðsins og Rannís.

Nýi flokkarinn ræður við að flokka stærstu laxaflök sem eru allt að 800 mm löng. Þá er hann mjög hraðvirkur og getur flokkað og pakkað flökum frá hefðbundnum flökunarvélum eða pakkað 45-50 flökum/mínútu sem svarar um allt að 6000 kg/klst. „Við erum mjög ánægðir með afköst RapidAligner flokkarans þar sem hann hjálpar okkur við að halda fullum afköstum í pökkuninni einkum þegar við erum að pakka millilögðum afurðum”, segir Jonny að lokum.

RapidAligner flokkarinn er einkaleyfisvarinn og er hannaður af Völku. Umboðsaðili Völku í Noregi, First process AS, og komu þeir að hönnun millilagningarkerfisins og skilaði það samstarf mjög góðum árangri. Fjölmargir undirverktakar hér á landi hafa komið að smíði flokkarans í frábæru samstarfi.

Nánari upplýsingar:
Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku, helgi@valka.is farsími: 660 9300

Petter Leon Fauske, General Manager First Process, plf@firstprocess.no, +47 970 80 339

Jonny Småge, Vise President Vikenco, jonny@vikenco.no, +47 71 17 10 00

Valkaer frumkvöðlafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun á sjálfvirknilausnum fyrir fiskvinnslu sem hafa það að meginmarkmiði að auka gæði og bæta nýtingu hráefnisins og skila þannig fiskvinnslunni auknu virði fyrir afurðirnar. Sjá nánar á www.valka.is.Til baka Senda grein

header1


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica