Fréttir
  • Þorskur Mynd: Ragnar Th
    Thorskportrett

Átaksverkefni AVS

8.12.2008

Á árinu 2009 leggur AVS sjóðurinn áherslu á styttri verkefni og munu umsóknir þar sem verkefni eru til skemmri tíma en 12-18 mánaða að öllu jöfnu njóta forgangs. Lögð verður mikil áhersla á verkefni sem skila fljótt verðmætum og nýjum störfum fyrir íslenskan sjávarútveg.

Mikil þekking hefur orðið til á undanförnum árum í verkefnum sem unnin eru með styrk frá AVS sjóðnum og nú er lögð mikil áhersla á að koma „vitinu í verð“ til að skapa ný verðmæti og fleiri störf í íslenskum sjávarútvegi.

Umsóknafrestur er 30. janúar 2009 fyrir kl. 17:00

Auglýsing AVS

1. Styrkir til að vinna að vöruþróun og nýsköpun

AVS sjóðurinn hefur stutt mörg verkefni, sem geta skilað umtalsverðum verðmætum ef skapaðar eru réttar aðstæður. Mikilvægt er að velja þær rannsóknir sem eru lengst á veg komnar og koma afurðum þeirra verkefna í verðmæti, nýjar vörur, ný störf og aukin verðmæti fyrir sjávarútveginn.

Verkefnið sem sótt er um getur verið byggt á fyrri rannsókna- og þróunarverkefnum sem AVS sjóðurinn hefur styrkt, en ný og sjálfstæð verkefni eru alls ekki útilokuð.

Styrkurinn getur verið til þess að ráða sérfræðinga tímabundið eða til að kaupa þjónustu.

Verkefni sem hægt er að ljúka á skömmum tíma njóta að öllu jöfnu forgangs.

Miðað er við 8 m.kr sem hámarksupphæð styrks.

Opið er fyrir allar hugmyndir sem auka verðmæti sjávarfangs svo sem orkusparandi veiðiaðferðum, vistvænni veiðitækni, fullvinnslu, nýjum afurðum, nýrri tækni, aukinni nýtingu, matarferðamennsku, hönnun, fiskeldi, nýjum tegundum eða öðru því sem getur skila styrkþegum verðmætri afurð á stuttum tíma.

2. Styrkir til að flytja inn þekkingu eða fyrirtæki

AVS sjóðurinn er tilbúinn til að styrkja fyrirtæki eða einstaklinga til að leita að nýjum framleiðslueiningum, framleiðslufyrirtækjum eða þekkingu erlendis og flytja til Íslands.

Í þessu tilviki er mikilvægt að um sé að ræða nýjung á Íslandi og að á ferðinni sé fyrirtæki eða þekking sem eykur fjölbreytileikan í íslenskum sjávarútvegi, skapi aukin verðmæti og ný störf.

Nauðsynlegt er að fyrir liggi ákveðnar hugmyndir um möguleika þannig að ekki er hægt að sækja um óskilgreind tækifæri.

Mikilvægt er að verkefnið verði unnið á skemmri tíma en 12-18 mánuðum og að þeim tíma liðnum liggi fyrir fullmótaðar áætlanir um flutning þekkingar eða fyrirtækis.

Miðað er við 6 m.kr sem hámarksupphæð styrks. Styrkur er ekki ekki ætlaður til fjárfestinga.

3. Styrkir til að ráða mastersnema eða doktorsnema

Mastersnemar og doktorsnemar eru oft á tíðum að vinna að mikilvægum rannsókna- og þróunarverkefnum fyrir íslenskan sjávarútveg undir leiðsögn færustu sérfræðinga. Slík verkefni geta nýst fyritækjum í leit að nýrri tækni eða nýjum lausnum. Mikilvægt er að tengja saman háskóla og fyrirtæki og er AVS sjóðurinn tilbúinn til að styrkja verkefni þar sem ráðning nemanda er hluti af kostnaði verkefnisins.

Styrkirnir eru til fyrirtækja sem hyggjast ráða nemenda til afmarkaðs verkefnis. Verkefnið verður að vera hluti af framhaldsnámi þeirra og verkefnið verður að geta skapað aukin verðmæti sjávarfangs.

Um getur verið að ræða verkefni sem:

  • Miða að því að bæta núverandi vörur fyrirtækis eða þróa nýjar
  • Efla markaðssetningu eða komast inn á nýja markaði
  • Þróa ferla sem auka framleiðni, bæta gæði, auka afköst o.fl.

Upplagt er fyrir fyrirtæki að leita til þeirra sem hyggja á framhaldsnám eftir að hafa misst vinnuna að undanförnu. Meðal þeirra er að finna marga einstaklinga sem hafa mikla reynslu af erlendum samskiptum og hafa mikinn áhuga á að taka þátt í krefjandi verkefnum.

Lögð er áhersla á stutt og hnitmiðuð verkefni og njóta þau verkefni að öllu jöfnu forgangs sem geta skila afurð á sem stystum tíma.

AVS sjóðurinn er tilbúinn til að greiða allt að 50% af kostnaði verkefnisins, en hámarksstyrkur er 6 m.kr.Til baka Senda grein

header11


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica