Fréttir
  • Fiskvali
    Starfsmenn Stjörnu-Odda
    Frá vinstri: Hákon Óli Guðmundsson, Jóhann Björgvinsson og Torfi Þórhallsson

Fiskvali

3.11.2008

Stjörnu-Oddi vinnur að þróun fiskvala, flokkunarbúnaðar sem velur sjálfvirkt fisk inn og út úr trolli. Sjómenn forrita búnaðinn og velja með því tegundir og stærðir inn í trollið, öllum öðrum fisk verður sleppt út úr trollinu.

Markmiðið með búnaðinum er að auka verðgildi þess kvóta sem er veiddur með því að:

  • Velja tegund í trollið, hægt verður t.d. að velja ýsu frá þorsk
  • Velja stærð á þeim fisk sem til stendur að koma með að landi og besta þannig nýtingu aflans
  • Minnka meðafla sem verður sleppt á veiðidýpi.
  • Auka lífslíkur fiska sem er sleppt , í raun er verið að geyma meðaflann í hafi.

Búnaðurinn sjálfur er umhverfisvænn og gefur áður óþekkta möguleika á bættri umgengni okkar við sjávarauðlindina, slíkur búnaður hefur aldrei sést áður og því er um afar mikla nýnæmi að ræða. Í þessari nýsköpun nýtir Stjörnu-Oddi sér sérþekkingu sína, sem hefur byggst upp við þróun á neðansjávarmerkingarbúnaði, búnaði sem hefur verið í notkun hjá Hafrannsóknarstofnun frá árinu 2000 til merkingar á djúpsjávarfiskum eins og karfa.

Nú þegar getur búnaðurinn valið fisk eftir lengd. Unnið er að því að fullþróa getu búnaðarins til að greina í sundur tegundir. Búið er að finna réttu bylgjulengdirnar af ljósi sem þarf til að þekkja t.d. ýsu frá þorsk, svo ekkert er í vegi fyrir að bæta við tegundaflokkun.

Búið er að smíða fyrsta tækið,  eftir er að setja það saman og gera sjóklárt. Það þarf ekki að fjölyrða um gildi slíks búnaðar fyrir samfélagið, þar sem leitast er við að bæta umgengni við auðlindina, auka aflaverðmæti sem ætti að koma útgerðum og sjómönnum til góða.

Næstu skrefin eru að gera tilraunir með búnaðinn í sjó.  Eftir það verður árangurinn metinn og ef flokkunin sýnir nægilega góðan árangur gefst útgerðum kostur á að panta slíkan búnað.  Í kjölfarið verður ekkert að vanbúnaði við að hefja framleiðslu. Við framleiðsluaðlögun skiptir afar miklu máli að einfalda búnaðinn eins og kostur er, einfaldleiki og rekstraröryggi haldast oftast í hendur.

AVS sjóðurinn hefur stutt við þróun búnaðarins, auk þess koma HB Grandi og Hafrannsóknastofnunin að verkefninu.

Tilvísunarnúmer AVS: R 021-06

Til baka Senda grein

header5


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica