Fréttir
  • Bólusetning
    Bólusetning á seiði

Vetrarsár í eldisfiskum

27.10.2008

Vetrarsár í laxfisum og þorski orsakast af bakteríunni Mirotella viscosa. Sjúkdómurinn blossar upp í eldisfiski á veturna þegar hitastig sjávar er lágt og getur valdið gríðarlegu verðmætatapi. Núverandi bóluefni hafa ekki veitt viðunnandi vörn gegn sjúkdómnum.

AVS styrkir verkefni þar sem unnið hefur verið að einangrun peptíðasa (ensíms sem brýtur niður prótein) sem bakterían framleiðir og seytir út í umhverfi sitt. Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga um líffræði bakteríunnar og eiginleika hennar til að valda sýkingum. Einnig verður hannað bóluefni sem byggist á stökkbrigði bakteríunnar (stökkbreyttri vetrarsárabakteríu sem ekki framleiðir peptíðasann) og það prófað í fiski.

Búið er að einangra peptíðasann og skilgreina virkni hans. Peptíðasinn, sem er af flokki svokallaðra vibriolysina, er ekki banvænn laxi en veldur miklum blæðingum og drepi í vejum. Hann rýfur tengingar milli fiskafruma og getur því haft áhrif á útbreiðslu bakteríunnar í sýktum fiski og þar með þróun sjúkdómsins. Peptíðasinn brýtur einnig niður mótefni fisks og getur því mögulega haft hamlandi áhrif á ónæmiskerfi hans. Nú er unnið að gerð peptíðasa neikvæðs stökkbrigðis sem mun varpa frekara ljósi á þátt peptíðasans í sýkingarmætti bakteríunnar.

Áhrif peptíðasans og annarra afurða bakteríunnar á tjáningu bólgumiðlandi gena (IL-1β og IL-8) í laxafrumum hafa verið könnuð. Bólgumiðlandi gen taka þátt í að verjast sýkingum og í að ræsa ónæmissvar dýra. Peptíðasinn olli aukinni tjáningu á IL-8, en þó ekki í sama mæli og aðrar afurðir bakteríunnar. Niðurstöðurnar benda því til þess að peptíðasinn spili ekki lykilhlutverk í ræsingu ónæmissvars fisks.

     

Vetrarsár
 Regnbogasilungur með vetrarsár


Unnið er að birtingu niðurstaða verkefnisins í tveimur greinum.

Næstu skref verkefnisins eru að kanna sýkingarmátt peptíðasa neikvæðs stökkbrigðis og hanna og prófa tilraunabóluefni sem byggja á afurðum þess. Verkefnið er hluti af doktorsnámi Bryndísar Björnsdóttur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, undir leiðsögn Bjarnheiðar K. Guðmundsdóttur. Stefnt er að því að vinnu við verkefnið ljúki á næsta ári.

Tilvísunarnúmer AVS: R 006-04Til baka Senda grein

header14


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica