Fréttir
  • Þorskseiði
    Þorskseiði

Ufsapeptíð auka vöxt þorskseiða

16.10.2008

Mikil afföll og mismunandi gæði lirfa er eitt helsta vandamálið við eldi sjávarfiska en niðurstöður í verkefninu “Lífvirk efni við eldi lúðu og þorsks” benda til þess að ná megi fram töluverðri aukningu í vexti og afkomu lirfa ef fæðudýr sem notuð eru til fóðrunar lirfanna eru auðguð með ufsapeptíðum. Ufsapeptíðin eru framleidd úr ufsaafskurði í sprotafyrirtækinu Iceprotein ehf á Sauðárkróki.

Ýmis atriði geta haft áhrif á gæði lirfa og má þar sem dæmi nefna umhverfisþætti, næringarinnihald fæðudýra og fjölda jafnt sem samsetningu bakteríuflóru á fyrstu stigum eldisins. Þar að auki þroskast sérhæft ónæmiskerfi lirfa seint og þurfa þær því að reiða sig á ósérhæfða þætti ónæmiskerfisins á þessum fyrstu og viðkvæmustu stigum eldisins.

Í fyrsta hluta verkefnisins var lögð áhersla á að kortleggja fjölda baktería og samsetningu bakteríuflóru lirfa í eldiseiningum stöðvanna. Í framhaldi af þessu voru framkvæmdar endurteknar tilraunir þar sem fæðudýr lirfa voru auðguð með ufsa-peptíðum og þau síðan notuð til fóðrunar lirfa á fyrstu stigum eldisins. Þetta skilaði sér í auknum vexti og afkomu þorsklirfa sem að hluta til mætti skýra með því hve aðgengileg og auðmeltanleg næring peptíðin eru. Því vakti verulegan áhuga að meðhöndlun skilað sér einnig í áberandi hraðari þroska innri líffæra lirfanna auk þess sem greinileg örvun var á framleiðslu lykilþátta í ósérhæfðri ónæmissvörun lirfanna. Auðgun fæðudýra lirfa með ufsapeptíðum virtist ekki leiða til breytinga á samsetningu bakteríuflóru lirfa en vísbendingar voru um að ákveðin tegundasamsetning flóru væri hagstæð þorsklirfum á fyrstu stigum eldisins. Þannig kom í ljós ákveðin tegundasamsetning flóru í meltingarvegi lirfa í kerjum þar sem lifun og gæði lirfa voru best.

Af niðurstöðum að dæma er ljóst að mikilvægt er að rannsaka frekar áhrif mismunandi styrks peptíðanna, tíðni meðhöndlana og hvenær hentar best að hefja og ljúka fóðrun með peptíð-auðguðum fóðurdýrum. Mikill áhugi er því fyrir því að halda þessum rannsóknum áfram og leitað er leiða til þess að fjármagna þær rannsóknir í samstarfi með m.a. Iceprótein ehf og norskum þorskseiðaframleiðanda.

Tilvísunarnúmer AVS: R 063-07Til baka Senda grein

header6


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica