Fréttir
  • Ferskur fiskur
    Fersk flök í frauðplastkassa

Umhverfishitinn hefur mikil áhrif

29.9.2008

Hitastýring í kælikeðjum ferskra sjávarafurða er mikilvægur þáttur í því að skila kaupanda vöru af bestu mögulegu gæðum. Ferskar afurðir eru viðkvæmari fyrir hitabreytingum en fryst vara og því mikilvægt að umhverfishita sé stýrt allan tímann.

Með þetta til hliðsjónar hafa sérfræðingar Matís unnið að kortlagningu kælikeðja fyrir íslenska framleiðendur undanfarin misseri, bæði í verkefninu Kælibót og enn frekar í verkefninu Hermun kæliferla, sem hófst í júní sl.

Niðurstöður þessara mælinga hafa flestar leitt í ljós að það hitaálag, sem vara í pakkningum verður fyrir í flutningi frá framleiðanda til kaupanda er töluvert. Myndin sýnir dæmi um niðurstöður í umræddum flutningaferlum. Um er að ræða fersk ýsuflök í 12 kg frauðplastkössum, sem voru mjög vel forkæld fyrir flutning eins og myndin sýnir. Á hverju bretti var komið fyrir 28 kössum og var hitasíritum komið fyrir utan á og innan í þremur kössum í mismunandi hæð á sama brettinu. Síritarnir mældu hitastig á 5 mín fresti gegnum allan ferilinn og fæst þannig mynd af bæði hitastiginu umhverfis kassana sem og inni í þeim.

Í þessari tilraun vakti mesta athygli mjög hár umhverfishiti í flutningi og geymslu innanlands frá framleiðanda þar til flugvélin fór í loftið á Keflavíkurflugvelli (14,4 °C meðalumhverfishiti í rúmar 19 klst).   Hitaálagið var heldur minna þegar á leið flutning vörunnar en meðalumhverfishitinn í þær 43 klst. sem líða frá því flutningur hefst hjá framleiðanda þar til kaupandi tekur síritana úr er 11,0 °C.

    

 Línurit  

 Líturitið sýnir greinilega hvernig hátt umhverfishitastig hefur á endanum áhrif á innihald kassanna. Kassinn á miðju brettinu (græna línan) er best einangraður frá umhverfishitanum og sýnir í raun hvaða árangri hægt er að ná.

 

Það þarf ekki að koma á óvart að hitaálagið skilar sér í hækkun vöruhita þegar líða tekur á flutningaferilinn.  Myndin sýnir glöggt að kassinn í miðju stæðunnar nýtur einangrunar frá nærliggjandi frauðplastkössum sem leiðir til þess að flökin í kassanum, sem var neðst á brettinu, er u.þ.b. 5,5 °C heitari en flökin, sem voru í miðju stæðunnar. Þessi hækkun á hitastigi rýrir til muna geymsluþol vörunnar.

Þessi mikli munur á vöruhitastigi gefur svo sannarlega tilefni til endurbóta á kælikeðjum sem þessum, enda er það markmið Matís og samstarfsaðila í áðurnefndu verkefni Hermun kæliferla, en verkefnið er hluti af doktorsverkefni Björns Margeirssonar, sérfræðings hjá Matís. 

Tilvísunarnúmer AVS: R 037-08

Til baka Senda grein

header8


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica