Fréttir
  • Makríll
    Makrill

Makríll til manneldis

24.9.2008

Verðmæti makríls til manneldis er mun meira en til fiskmjölsframleiðslu og þess vegna eru miklir hagsmunir fólgnir í því að finna leiðir til að koma honum auðveldlega til frystingar í landi eða um borð í vinnsluskipum.

Með hækkandi hitastigi sjávar hefur orðið vart við vaxandi makrílgengd á Íslandsmiðum. Makrílveiðar hafa aukist frá engu upp í rúm hundrað þúsund tonn sumarið 2008. Hluti aflans var unninn til manneldisum borð í vinnsluskipum frá Vestmannaeyjum, í fyrsta sinn hér á landi.

Mikilvægt er að bregðast hratt við og kanna vinnslumöguleika makrílsins, svo hámarka megi afrakstur þessarar nýju tegundar í íslenskum sjávarútvegi. Á Matís er unnið að rannsóknum á þessum nýja nytjafiski okkar, í samstarfi við útgerðaraðila. Vorið 2008 hófst tveggja ára verkefni, „Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum“ sem styrkt er af AVS. Samstarfsaðilar verkefnisins eru Ísfélag Vestmannaeyja hf og Huginn ehf.

Markmiðið er að kanna veiðar uppsjávarfiskiskipa á makríl á Íslandsmiðum, gera mælingar á lögun fisksins, koma með lausnir hvernig flokka megi makrílinn frá öðrum fiski um borð og hvernig vinnslunni skuli háttað í frystiskipum. Tækjakostur sem nauðsynlegur er við vinnsluna hefur verið greindur, en einnig verða markaðir kannaðir fyrir makríl veiddan á Íslandsmiðum eftir árstímum.

Þrjú skip taka þátt í verkefninu, tvö vinnsluskip og eitt skip sem einungis kælir aflann um borð. Makríllinn er veiddur með síld í flottroll, í vinnsluskipunum er makríllinn flokkaður frá síldinni, hann hausskorinn, innyflin soguð innan úr og hann síðan frystur í blokkir. Á veiðiskipinu sem einungis kælir aflann fer makríllinn síldarblandaður í bræðslu. Á þessum skipum hefur sýnum verið safnað vikulega sumarið 2008. Könnuð er þyngdardreifing, lögun og kyn er greint, ásamt mælingum á fitu- og vatnsinnihaldi. Í lest skipsins sem einungis kælir aflann um borð var komið fyrir hitanemum, sýni voru tekin þaðan þegar verið var að landa aflanum. Á þeim sýnum eru gerðar ferskleikamælingar (TVN) ásamt mælingum á salti, fitu og vatnsinnihaldi.

Verkefnið skilar þekkingu á eiginleikum og gæðum makríls sem er grunnur þess að geta forflokkað aflann um borð og stýrt veiðum, geymslu og tíma eftir vinnsluferlum í landi. Með þessu móti er ætlunin er að ná mestri verðmætasköpun við veiðar og vinnslu á makríl til manneldis.

Tilvísunarnúmer AVS: R 007-08Til baka Senda grein

header4


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica