Fréttir
  • Börkur NK
    Börkur NK-122
    Er eitt þeirra skipa sem þátt tekur í verkefninu

Verðmæti uppsjávarfisks aukið með bættri kælitækni

15.9.2008

Verkefnið Aukið verðmæti uppsjávarfisks – bætt kælitækni hófst í júní 2008. Markmið verkefnisins er að leggja grunn að nýrri aðferð við kælingu og geymslu uppsjávarfiska um borð í nótaskipum.

Aðferðinni er ætlað að lækka orkukostnað og auka geymsluþol og bæta þar með gæði á lönduðu hráefni uppsjávarfiska. Betri gæði fást með betri kælingu og með því að ná stjórn á saltupptöku í hráefninu. Markmiðið er að gæði landaðs afla verði það mikil að hann verði nýtilegur í vörur sem ætlaðar eru til manneldis.

Fjórir umfangsmestu verkþættinir fela í sér líkanagerð m.a. fyrir kælingu og geymslu uppsjávarfiska, rannsóknir á mismunandi kælikerfum og áhrifum íblöndunarefna að ógleymdri samþættingu líkana og tilrauna.

Áætlaður ávinningur er margþættur. Með minni orkunotkun uppsjávarskipa minnkar mengun og rekstur skipaflotans verður arðbærari.  Bætt kælitækni og framþróun í notkun bætiefna gerir fiskframleiðendum kleift að nýta stærri hluta aflans til framleiðslu á verðmætari afurðum bæði til manneldis og fóðurgerðar.  Þá er vísindalegur ávinningur fólginn í hagnýtingu tölvuvæddrar varma- og straumfræði (CFD) og lærdómi um hvernig nýta má þá fræðigrein innan sjávarútvegsins.  Reiknað er með því að verkefnið komi til með að nýtast útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum, kælitækjaframleiðendum og hönnuðum skipa.  Ætlunin er að birta niðurstöður verkefnisins á verkefnafundum og í fagtímaritum innanlands og einnig á alþjóðlegum ráðstefnum og í vísindatímaritum.  

 Samstarfsaðilar í verkefninu eru Matís ohf, Síldarvinnslan hf og Skinney Þinganes hf. 

Nánari upplýsingar um verkefnið má fá hjá Birni Margeirssyni hjá Matís í síma 4225000

Tilvísnunarnúmer AVS: R 051-08Til baka Senda grein

header15


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica