Fréttir
  • Um borð í línuveiðibát
    Pokabeituveidar
    Á leið á veiðar með pokabeitu

Beita úr ódýrara hráefni

14.12.2007

Miklar rannsóknir hafa farið fram á eiginleikum pokabeitunnar svokölluðu og nú liggur fyrir mikil þekking á ýmsum samsetningarmöguleikum og veiðni beitunnar.

AVS sjóðurinn hefur styrkt þetta verkefni sem nú er nýlokið, en markmið verkefnisins var að þróa og framleiða áhrifaríkar samsettar beitur fyrir línuveiðar úr vannýttu hráefni. Við framleiðslu beitunnar var notuð svokölluð “snjótækni”, en sú aðferð byggir á því að raspa frosið hráefni og móta það í réttar beitustærðir, sem síðan er pakkað í trefjaumbúðir.

Í upphafi veiðitilrauna með pokabeitu fyrir nokkrum árum var pokabeitan að veiða að meðaltali minna en sambærileg hefðbundin beita. Með frekari þróun síðustu ára hefur þessi munur farið minnkandi og í síðustu veiðiferðinni sem farin var í nóvember 2006 fékkst betri ýsuafli á pokabeitu en á venjulega beitu. Þegar notað var C-vítamín í pokabeituna, til að verja hana gegn þránun, var aflinn heldur meiri en með pokabeitu án C‑vítamíns. Íshúðun með C-vítamíni virtist gefa einhverja vörn gegn þránun þó mestu máli skipti að geyma pokabeituna í lofttæmdum umbúðum fram að notkun. Kostir pokabeitunnar eru betri nýting hráefnis því minna magn fer í pokabeituna. Einnig er hægt að notast við ódýrt vannýtt hráefni í pokabeituna, auk þess sem auðvelt og þrifalegt er að beita henni því hver beita er sérpökkuð og tilbúin á krókinn.

Í tengslum við verkefnið var hönnuð og smíðuð beitningavél. Tilraunir sem gerðar voru með beitningavélina á vormánuðum 2007 með Vísi hf. leiddu til 97% beitingu.

Með tilkomu pokabeitunnar og beitningavélarinnar er hér komin enn ein leið til að auka verðmæti vannýttra fisktegunda og aukahráefnis hér á landi.

Verkefnið var unnið í samvinnu Matís ohf, Hafrannsóknastofnunar og Seabait hf í Súðavík

Skýrslu verkefnisstjóra má nálgast hér.

Tilvísunarnúmer AVS: R 041-05

Til baka Senda grein

header9


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica