Fréttir
  • Lyftari með lesurum
    Lyftari með lesurum

Bætt vinnslustýring

28.11.2007

Auknar kröfur um réttar og öruggar upplýsingar um uppruna matvæla hafa leitt til þess að sífellt er leitað nýrra leiða til þess að hafa eftirlit með afla allt frá veiðum til markaðar. AVS hefur styrkt verkefni sem miðar að því að merkja fiskiker með rafrænum hætti en slíkar merkingar gefa aukna möguleika á hagnýtingu rekjanleika. Þá gera þau fyrirtækjum kleift að senda rafrænar upplýsingar til kaupenda um það hvar afurðin er veidd, hvar hún hefur verið verkuð og hvaða leið hún hefur farið á markað.

Um er að ræða verkefni, sem nefnist “Notkun RFID merkja í fiskvinnslu”, og var unnið af Fisk Seafood á Sauðárkróki, Matís ohf, Maritech hf og Promens á Dalvík. RFID merki (Radio Frequency Identification) eru örmerki sem nema má án snertingar. Algengustu merkin innihalda ákveðið númer eða auðkenni, sem er einstakt fyrir hvert merki. Promens á Dalvík hefur hannað nýja gerð kera sem hafa þessi merki og Maritech hefur þróað hugbúnað og lesara sem nýtast í erfiðu umhverfi fiskvinnslunnar. Matís hefur síðan ásamt FISK Seafood unnið að úrvinnslu gagna og tilraunum í vinnslu.

Niðurstaða verkefnisins er í stuttu máli sú að allar hugmyndir sem unnið var með gengu eftir, en eins og við mátti búast þá þarf að gera ýmsar lagfæringar eins og að koma lesurum og merkjum þannig fyrir að ekki skapist tafir í vinnslunni.

Um borð í veiðiskipum FISK Seaffod er staðið vel að skráningu afla sem fylgir síðan hráefninu inn í vinnsluna, þessar upplýsingar eru tengdar kerunum, Á lyfturum fyrirtækisins eru lesarar sem lesa merkin í kerunum og við þvottakarið fyrir framan hausara er annar lesari sem greinir upplýsingarnar um kerið og það hráefni sem er á leið í vinnslu.

Fylgst var nákvæmlega með flæði hráefnisins í gegnum vinnsluna til að greina hvort hráefni úr mismunandi kerum næði að haldast aðgreint alla leið í gegn. Samkvæmt þeim mælingum sem voru gerðar var hver fiskur um 12 mínútur að fara í gengum vinnsluna að meðaltali, með nokkrum undantekningum. Í þvottakarinu gerist það að fiskarnir flæða ekki út í sömu röð og þeir koma inn þannig að sumir fiskar eru allt að 36 mínútur að komast frá upphafi til enda vinnslunnar.

Um verkefnið í heild má lesa í skýrslu sem nálgast má hér.

Tilvísunarnúmer AVS: R 039-06Til baka Senda grein

header8


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica