Fréttir
  • Hlyri
    Hlyri
    © Jón B. Hlíðberg, www.fauna.is

Frysting á sviljum úr hlýra

26.11.2007

Þreifingar með eldi á hlýra hafa staðið yfir í nokkur ár í eldisaðstöðu Hlýra ehf á Neskaupsstað. Markmið fyrirtækisins er að kanna hagkvæmni og möguleika með hlýraeldi á Íslandi.

Safnað var villtum hlýra og framleidd seiði. Nú er fyrsta kynslóð eldisfisks að nálgast kynþroska og því mikilvægt að nýta þann efnivið til frekara þróunarstarfs. Einn af þröskuldum í hlýraeldi hefur verið aðgengi að nægu magni svilja til frjóvgunar hrogna. Með stuðningi frá AVS sjóði var unnið að því að draga úr þessu vandamáli með þróun á aðferðum til þess að frysta svil.

Frysting svilja úr fiskum gagnast t.d. við að meta kynbótaframfarir, varðveislu á erfðaefni og getur einnig verið gagnlegt tæki til þess að draga úr vanda ef aðgengi að sviljum er einhverra hluta takmarkandi þáttur í framleiðsluferli en slíkt er uppi á teningnum við eldi á hlýra.

Þróaðar hafa verið aðferðir til þess að frysta svil úr ýmsum tegundum ferskvatns- og sjávarfiska. Þrátt fyrir að aðferðir til þess að frysta svil séu alla jafna ekki mjög flóknar eru ýmsir þættir sem þarf að huga að og aðlaga fyrir hverja tegund. Má þar nefna þætti eins hvaða gerð af frostlegi er notaður og í hvaða hlutfalli honum er blandað saman við svil. Það hve hratt blanda af sviljum og frostlegi er kæld niður við frystingu og hraði við afþýðingu getur einnig haft áhrif á lifun svilja.

Frysting á sviljum felur í sér að sviljum er blandað saman við lög sem inniheldur frostlög. Frostlögurinn hefur þau áhrif að frumurnar þorna upp (dehydrate) og dregur þannig úr líkum á því að ískristallar myndist sem getur leitt til þess að frumurnar springa við frystingu. Svil úr hlýra hafa um margt nokkuð sérstæða eiginleika sem gera það af verkum að þróa þarf sérstaklega aðferðir til frystingar svilja.

Hlýri er talinn hafa innri frjóvgun hrogna. Svil úr hlýra eru því hreyfanleg þegar þeim er safnað úr hængum en missa hreyfigetu sína ef þeim er blandað við sjó ólíkt því sem er hjá flestum öðrum sjávarfiskum þar sem svil verða fyrst hreyfanleg þegar þau komast í snertingu við sjó.

Í þessu verkefni var markmið að þróa áreiðanlegar aðferðir til þess að frysta hlýrasvil sem leiddu til góðrar lifunar við þýðingu. Tilraunir voru settar upp til þess að prófa mismunandi hraða frystingar (kælingar) og hraða við þýðingu. Hraða frystingar er hægt að stjórna með því stilla hæð röra, sem innihalda blöndu af sviljum og frostlegi, frá yfirborði fljótandi köfnunarefnis. Við frystingu svilja úr fiskum er algengast að nota 0.5 ml rör. Í þessu verkefni voru könnuð áhrif af því að nota 1.0 ml rör til frystingar. Ef hægt er að nota stærri rör til frystingar eykur það á notagildi aðferðarinnar s.s við frjóvgun á hrognum. Frostlögur (DMSO - dimetyl sulfoxide) hefur eitrunaráhrif á frumurnar og því mikilvægt að ákvarða besta hlutfall í sviljablöndu. Könnuð var lifun við notkun á mismunandi styrk DMSO við frystingu svilja.

Þau markmið sem lagt var upp með náðust. Með því að nota hlutfall af DMSO á bilinu 10 – 20% við frystingu svilja úr hlýra fékkst þrisvar sinnum betri lifun við afþýðingu en þegar notast var við 30% DMSO. Mismunandi hraði frystingar virtist ekki hafa afgerandi áhrif á lifun hlýrasvilja við frystingu að minnsta kosti á því sviði sem prófað var (5-15 mínútur í -80˚C). Lifun var jafn góð eða betri þegar notast var við 1.0 ml rör til frystingar í samanburði við 0.5 ml rör.

Sýnt var frammá að hægt er að frysta svil úr hlýra með viðunandi árangri. Þær aðferðir sem lýst var í þessu verkefni verður hægt að nota í framtíðinni til þess að frysta svil úr hlýra og munu auka líkur á því að hægt verði að búa til seiðahópa til notkunar í rannsóknar og þróunarstarfi í framtíðinni. Á ýmsu þarf þó enn að huga til þess að kortleggja bestu aðferðir nákvæmlega.

Tilvísunarnúmer AVS: S 035-06Til baka Senda grein

header19


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica