Fréttir
  • Fiskrettur
    Fiskréttur

Ýsa var það, heillin!

5.10.2007

Í nýrri skýrslu Matís, þar sem birt er samantekt á þeim upplýsingum sem fyrir liggja um neyslu Íslendinga á hinum ýmsu fisktegundum, kemur m.a. fram að Íslendingar elska ýsu öðrum fiskum fremur. Og kemur líklega fáum á óvart!

Skýrslan nefnist “Fiskneysla 17 til 49 ára Íslendinga á mismunandi fisktegundum og -afurðum” og er hluti af AVS verkefninu “Verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða - Áhættusamsetning og áhætturöðun”. Að sögn skýrsluhöfundar, Kolbrúnar Sveinsdóttur, er markmiðið með skýrslunni að gera ítarlega og aðgengilega samantekt á nýjustu upplýsingum sem tiltækar eru um fiskneyslu Íslendinga. Slíkar upplýsingar hafa ekki legið á lausu hingað til.

Á meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að fiskneysla eldra fólks er meiri en þeirra yngri og að eldri aldurshópurinn borðar einnig fjölbreyttara úrval fisktegunda og -afurða heldur en þeir yngri. Nokkur munur virðist einnig vera á fiskneyslu höfuðborgarbúa annars vegar og landsbyggðarfólks hins vegar, bæði hvað varðar tíðni fiskneyslu og þær fiskafurðir sem borðaðr eru.

Fiskur er oftar á diskum fólks á landsbyggðinni og oftast er þá um hefðbundnar afurðir s.s. ýsu, þorsk og saltfisk að ræða og oftar en ekki er um frystar afurðir að ræða. Höfuðborgarbúar borða meira af ferskum fiski og hálf-tilbúnum fiskréttum, sem ugglaust stafar af betra aðgengi að slíkri vöru en er í boði úti á landi. Þeir eru einnig líklegri til að borða fisk utan heimilis heldur en landsbyggðarfólk.

Kolbrún segir að samantektin byggi að mestu á upplýsingum sem aflað var í viðhorfs- og neyslukönnun AVS verkefnisins “Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða” sem gerð var árið 2006, þar sem rúmlega 2000 manns svöruðu spurningum um fiskneyslu sína og viðhorf.

Kolbrún leggur áherslu á nauðsyn þess að upplýsingar af þessu tagi þurfi að ná yfir alla aldurshópa og nefnir sem dæmi að fólk, eldra en 65 ára, sé töluvert viðkvæmara fyrir ýmsum áhættuþáttum en aðrir.

Frétt af heimasíðu Matís

Tilvísunarnúmer AVS: R 020-05Til baka Senda grein

header8


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica