Fréttir
  • Karfi á ís
    Karfi á ís
    Hvaðan kemur hann og hvert fer hann?

Hvaðan og hvert - rannsóknir á rekjanleika

26.9.2007

Í kjölfar alvarlegra áfalla sem matvælaiðnaðurinn varð fyrir í lok síðustu aldar, þá hefur verið unnið markvisst að því að tryggja rekjanleika matvæla þ.e. að upplýsingar sem verða til í ferlinu séu réttar og fylgi vörunni frá upphafi til enda.

Rekjanleiki hefur gjarnan verið tengdur gæðaferlum innanhúss í matvælafyrirtækjum – skjalfestingu á því sem þar hefur farið fram og að öryggiskröfur hafi verið uppfylltar. Í tengslum við hertar reglur í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum varðandi rekjanleika hefur svokallaður “keðjurekjanleiki” eða ytri rekjanleiki þó fengið aukið vægi. Ytri rekjanleiki felur í sér að fyrirtæki þurfa að geta rakið leið vöru og hráefna í gegnum virðiskeðjuna en núverandi löggjöf gerir kröfu um að geta rakið einn hlekk niður og einn hlekk upp, þ.e. hvaðan koma varan og hvert fór hún.

Til að ná fram ytri rekjanleika er nauðsynlegt að hver framleiðslulota innan fyrirtækis eigi sér eigið einkenni (ID) og að hægt sé að tengja saman einkenni úr einu fyrirtæki við einkenni úr öðru fyrirtæki. Til að hægt sé að ná utan um þetta hafa verið þróuð kerfi (gjarnan nefnd rekjanleikakerfi) sem halda utan um þessi einkenni með rafrænum hætti.

Á sama tíma eru fyrir hendi gæðakerfi í flestum matvælafyrirtækjum.  Mismunandi er hversu viðamikil þessi kerfi eru, en öll gera þau ráð fyrir eftirliti og skráningum við ýmsa eftirlitsstaði dæmi um gæðakerfi af þessu tagi er HACCP. 

Nýlega lauk Norrænu verkefni sem hafði að markmiði að samþætta upplýsingar úr gæðakerfum og rekjanleikakerfum og greina með hvaða hætti slík samþætting gæti nýst til bættrar stjórnunar.  Matís tók þátt í verkefninu, með stuðningi AVS, en það fólst m.a í greiningu á íslensku sjávarútvegsfyrirtæki.  Helstu niðurstöðum verkefnisins hafa nú verið gerð skil í vísindagrein sem send hefur verið til birtingar í vísindatímaritinu Journal of Food Engineering.

Meðal þess sem Norræna verkefnið skilaði var mikil þekking á þeim verkefnum sem eru í gangi varðandi rekjanleika á hinum Norðurlöndunum.  Norðmenn hafa lagt mikla áherslu á slík verkefni, ekki síst eftir umfangsmiklar matarsýkingar sem komið hafa upp þar.  Mikil áhersla hefur verið lögð á að miðla niðurstöðum úr slíkum verkefnum og hafa vísindamenn sem tengjast þessu verkefni haldið yfir 70 kynningar á verkefnum tengdum rekjanleika sl. ár.   Nánar má lesa um Norræna verkefnið á http://www.ifsat.no

Hið Norræna netverk vísindamanna sem myndast hefur í verkefninu hefur einnig stuðlað að því að Norðurlöndin standa mjög framarlega í rannsóknum á rekjanleika á heimsvísu.  Verkefnin SEAFOODplus og Trace eru gott dæmi um þetta, en í báðum þessum verkefnum er unnið með innra skipulag rekjanleikakerfa.  Matís hefur svo nýtt sambönd sem myndast hafa í þessu verkefni til að mynda samstarfsgrundvöll um umsókn til Evrópusambandsins varðandi rannsóknir á sjálfbærri þróun í matvælaiðnaði.  Þar skipar rekjanleiki mikilvægan sess, enda erfitt að sýna fram á að matvæli séu framleidd með umhverfisvænum hætti nema hægt sé að rekja leið þeirra í gegnum virðiskeðjuna.

Þá hefur rekjanleiki verið nýttur í rannsóknum Matís til að leggja grunn að gagnasöfnun um ástand þorsks á Íslandsmiðum.  Slík gögn má nýta til stýringar á veiðum sjávarútvegsfyrirtækja eins og meistaraverkefni Runólfs Guðmundssonar sýndi.  Erlendar rannsóknastofnanir hafa sýnt þessari aðferðafræði talsverðan áhuga, en talið er víst að rekjanleiki muni gegna æ mikilvægara hlutverki í framleiðslu-og aðfangastjórnun í framtíðinni.

Tilvísunarnúmer AVS: S 010-06Til baka Senda grein

header16


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica