Fréttir
  • Langalaxsíld
    Langalaxsild

Í leit að nýjum tegundum

30.8.2007

Mikið magn af miðsjávarfiskum finnst víða í úthafinu og við landgrunnskantana við Ísland sem og önnur lönd beggja vegna Atlantsála. Að undanförnu hafa nokkur útgerðarfyrirtæki sameinast um að kanna mögulegar veiðar á laxsíld og öðrum miðsjávartegundum.

AVS sjóðurinn styrkti verkefni sem hafði það að markmiði að reyna að þróa og prófa veiðarfæri þannig að hægt væri að ná góðum tökum á veiðum á laxsíld og öðrum miðsjávartegundum. Þeir fiskar sem í daglegu tali eru kallaðir laxsíldar eru margar tegundir miðsjávarfiska og tilheyra jafnframt mörgum ættum beinfiska. Flestir eru fiskarnir smáir, milli 2 og 15 cm. Þeim er það sameiginlegt að lífsferillinn er stuttur, vanalega frá 1-5 ár. Þeir hrygna fáum eggjum, frá nokkrum hundruðum til nokkurra þúsunda. Þetta bendir til þess að náttúrulegur dauði sé ekki mikill á fyrstu stigum ævinnar en virðist aukast á fullorðinsstigum. Flestir þeirra hafa afmarkaðan hrygningartíma og því má leiða líkum að því að á þeim tíma gætu laxsíldar safnast saman í tiltölulega þéttar lóðningar.

Vandamál hefur verið að veiða þessar tegundir, bæði vegna þess hversu smáar þær eru en einnig sökum þess hversu dreifðar lóðningarnar eru í sjónum Oft má finna lagskiptar lóðningar sem ná frá yfirborði og niður á meira en 800 metra dýpi.

Í þessum fyrsta áfanga verkefnisins var gert ráð fyrir að þróa veiðarfærið og ganga úr skugga um að það henti til veiða á miðsjávarfiski, enda er það forsenda frekari rannsókna og könnunar á því hvaða veiðisvæði og veiðitímar koma helst til greina, sérstaklega í ljósi þess hversu lítið er hægt að treysta á bergmálstækin a.m.k. enn sem komið er.

  

 Bergmálstæki  Laxsildar
 Skjámynd af dýptarmæli myndin sýnir 5 mílna kafla og dýptarsviðið er frá yfirborði og niður á 1000 metra dýpi. Lóðningar sjást bæði við yfirborð en einnig frá 300-800 metra dýpi.  Laxssíldir í bland við ljósátu. Oft er tegundafjöldin mikill

Veiðarfærið sem þróað var til prófunar er endurbætt útgáfa af Gloria trolli sem hefur verið notað með góðum árangri við veiðar á uppsjávarfiskum s.s. kolmunna, síld og loðnu en einnig við veiðar á karfa í úthafinu.  Veiðarfærinu var breytt mikið og það síðan prófað um borð í rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni á völdum stöðum í Grænlandshafi í júní á síðasta ári.

Afrakstur rannsókna af þessu tagi er mælanlegur fyrst og fremst í því hvort tekst að veiða miðsjávarfisk í því magni að það hafi efnahagslega þýðingu. Að því leyti má segja að niðurstöðurnar séu ekki mjög jákvæðar því mest veiddist um tæp 300 kíló á klukkustund í þeim prófunum sem fram fóru. Svo virðist sem að veiðarfærið sem prófað var sé ekki nægjanlega veiðið til að safna saman laxsíldum í því magni að hægt sé að stunda arðbærar veiðar. 

Hinsvegar hefur stuðningur AVS leitt til þess að fengist hafa svör við ákveðnum spurningum og aðrar spurningar vaknað. Niðurstaða verkefnisins er skýr, þ.e. frekari þróunar er þörf.  Hópurinn sem að verkefninu stóð mun áfram vinna saman að því að þróa hugmyndir að veiðarfærum sem gætu gert veiðar á laxsíldum arðbærar. Enda þótt mælanlegur árangur verkefnisins sé ekki mikill mun þó sú reynsla sem fékkst í  verkefninu verða góður grunnur að áframhaldandi þróun veiðarfæra til veiða á smáum miðsjávarfiskum, auðlind sem ekki hefur verið nýtt hér við land.   Laxsíldir eru líklega sú auðlind sjávarfiska sem hvað mest er af í heimshöfunum og er ekki nytjuð í dag.  Með auknu fiskeldi og þar af leiðandi aukinni þörf fyrir prótein og lýsi geta þessar tegundir orðið mjög mikilvæg uppspretta sem fæða fyrir eldisfiska í framtíðinni. 

 

Tilvísunarnúmer AVS: R 010-05

Til baka Senda grein

header3


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica