Fréttir
  • Lúðuseiði
    Lúðuseiði
    Mynd úr myndasafni Fiskeyjar hf

Lengi býr að fyrstu gerð

28.9.2005

Forvarnir í fiskeldi er eitt af stóru verkefnunum sem AVS rannsóknasjóðurinn hefur styrkt. Meginmarkmið verkefnisins er að auka lifun hrogna og lirfa í eldi þorsks og lúðu. Mikilvægt er að þekkja jákvæða og neikvæða líf- og efnafræðilega þætti í eldinu svo mögulegt sé að hafa jákvæð áhrif á afkomu lifra.

Mikil uppbygging á sér stað í eldi sjávarfiska hjá nágrannaþjóðum okkar og samkeppnislöndum, sem gæti haft víðtæk áhrif á markaðssetningu villts fisks jafnt sem eldisfisks. Mikilvægt er að taka þátt í þeirri uppbyggingu hér á landi og AVS rannsóknasjóðurinn stutt þá uppbyggingu á undanförnum árum og er verkefnið forvarnir í fiskeldi eitt af mörgum fiskeldisverkefnum AVS.

Vöxtur óæskilegra örvera í fiskeldi er þekkt vandamál sem veldur lélegum vexti og miklum afföllum á fyrstu stigum seiðaeldisins. Nauðsynlegt er að finna leiðir og þróa aðferðir til að greina og bæta umhverfisþætti í eldinu, lífræna og ólífræna, á frumstigi eldisins, þ.e. frá klaki til loka lirfuskeiðs, en á því tímabili eru afföllin hvað mest.

Verkefninu er skipt í tvo megin hluta:

A) Forvarnir í þorskeldi (2004-2007)

B) Flokkun örvera og notkun probiotika í lúðu og þorski (2004-2006).

Orðið “probiotika” merkir notkun lifandi baktería sem fæðubótarefni í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á viðkomandi einstakling, t.d. með því að bæta örverufræðilegt jafnvægi í meltingarvegi hans.

Í A-hlutanum er áherslan lögð á:

· skilgreiningu á þeim þáttum eldisins sem hafa neikvæð áhrif á afkomu og þroska þorsklirfa

·      einangrun og greiningu æskilegra baktería úr eldisumhverfinu

·      rannsóknum á virkni valdra (æskilegra) baktería

·      þróun forvarnaraðferða.

Helen Lauzon

Mynd: Hélène L. Lauzon á Rf við örverutalningar

 

Verkefnisstjóri A-hlutans er Hélène L. Lauzon á Rf, samstarfsaðilar hennar eru Sigríður Guðmundsdóttir, Tilraunastöð HÍ í meinafræði á Keldum og Agnar Steinarsson, Tilraunastöð Hafró að Stað við Grindavík.

Það hafa ekki fundist sjúkdómsvaldandi bakteríur í þeim sýnum sem hafa verið tekin til þessa. Eftir leit að jákvæðum bakteríum voru valdir 10 bakteríustofnar til að vinna áfram með við eldistilraunir.

Settar voru af stað tilraunir í Grindavík til að kanna mögulega notkun “æskilegra” baktería við þróun “probiotic” lifandi fæðudýra, böðun hrogna og lirfa með það í huga að þróa forvarnaraðferðir sem hafa áhrif á afkomu, þroska, streitu- og sjúkdómsþol þorsklirfa. Tilraunum er nýlega lokið og unnið er að mælingum og úrvinnslu, en böðunartilraunirnar virðast hafa heppnast best hvað varðar lifun lirfa. Frekari þróun “probiotic” lifandi fæðudýra er nauðsynleg fyrir næsta vor þar sem lokatilraun með völdum forvarnaraðferðum auk sýkingartilrauna er áætluð til sannprófunar.

Meginmarkmið B-hlutans er að:

·      setja upp örverugreiningaraðferðir

·      flokka örveruflóru í lúðueldi með sameindafræðilegum aðferðum

·      kanna áhrif valinnar probiotika-blöndu á vöxt og afkomu lúðu- og þorsklirfa.

Verkefnisstjóri B-hlutans er Arnar Jónsson hjá Fiskey ehf. Samstarfsaðilar eru Rannveig Björnsdóttir, Rf/HA á Akureyri, Helgi Thorarensen, Hólaskóla, Ágústa Guðmundsdóttir, HÍ og Viktor Mar Bonilla, Náttúrufræðistofnun Íslands Akureyrarsetur

Margt bendir til að hæfni fisklirfa til að melta fæðu við upphaf fæðunáms stjórnist af getu þeirra til að framleiða virk meltingarensím og þá aðallega trypsín. Áhugavert er að bera saman trypsín búskapinn í fóstrum/lirfum sem fengið hafa probiotic-meðferð og í fóstrum/lirfum sem ekki hafa fengið hana

Synataka i fiskeldi

Mynd: Hólmfríður Sveinsdóttir (HÍ) og Særún Ósk Sigvaldadóttir (HA) við sýnatöku á þorsklirfum

 

Sýnum var safnað úr lúðueldinu, allt frá hrognastigi til enda startfóðrunar. Ræktanleg bakteríuflóra úr þessum sýnum hefur verið flokkuð og niðurstöður styðja fyrri rannsóknir sem hafa sýnt að bakteríuflóra á fyrstu stigum eldis sjávarfiska er afar fjölbreytileg og mismunandi bakteríutegundir virðast ná fótfestu í einstaka eldiseiningum. Það hefur ekki reynst unnt að tengja mynstur ræktanlegrar bakteríuflóru góðri eða slæmri afkomu lirfa í kerjum.

Könnuð  hafa verið áhrif meðhöndlunar með valinni probiotika-blöndu (PRO) á mismunandi stigum lúðueldis. Niðurstöður lofa góðu og sýna að unnt er að auka afkomu kviðpokalirfa um allt að 20% við meðhöndlun á hrogna- og kviðpokastigi. Síðan verður rannsakað frekar hvernig meðhöndlun með PRO-blöndu er best háttað á fyrstu stigum lúðueldis auk þess sem tilraunir voru gerðar með meðhöndlun á fyrstu stigum þorskeldis á Stað við Grindavík. Einnig verða rannsökuð áhrif meðhöndlunar fóðurdýra með PRO-blöndu á vöxt og afkomu lúðulirfa í startfóðrun auk þess sem unnið verður áfram að greiningu sýna með sameindafræðilegum aðferðum.

 Til baka Senda grein

header1


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica