Fréttir
  • Samvalstæki í HB Granda
    Valka RabidWeigher
    Samvalstækið uppsett í HB-Granda

Prófanir á sjálfvirkri pökkun á ferskum fiskflökum og bitum ganga vel

30.8.2005

HB Grandi hf og Valka ehf hafa frá í byrjun desember á síðasta ári unnið að þróun á tækjabúnaði til að pakka sjálfvirkt ferskum flökum og flakabitum í pakkningar af fastri þyngd með lágmarks yfirvigt en verkefnið hefur verið stutt af AVS-sjóðnum.

Í lok júní í sumar var frumgerð af samvalstækinu (e. multihead) tilbúin og var hún þá sett upp til prófana í fiskiðjuveri HB Granda hf í Norðurgarði í Reykjavík. Samvalstækið hefur hlotið nafnið Valka RapidWeigher. Valka RapidFeed vélin er notuð til að mata hráefnið inn á samvalstækið en sú vél var einmitt þróuð í samvinnu sömu fyrirtækja og lauk þeirri þróun í upphafi árs 2004 og var það verkefni styrkt af Samstarfsvettvangi sjávarútvegs og iðnaðar.

Skemmst er frá því að segja að niðurstöður prófana eru mjög lofandi. Hráefnismeðhöndlun hefur reynst vera mjög góð, bæði á karfaflökum og ufsahnökkum. Yfirvigtin er að jafnaði innan við 30g eins og að var stefnt og ekki er þörf á að hafna neinum stykkjum eða skömmtum, eins og algengt er í samvalstækjum, þar sem að innmötunarstýringin matar ávallt rétt magn í vigtarhólfin. Í þessum prófunum var stefnt að afköstum upp á 1500 kg/klst og hafa þau afköst náðst.

Samvalstæki í HB Granda

Mynd frá prófunum í HB Granda þann 23. ágúst 2005, en þann dag var öll pökkun á kældum flökum unnin á nýju vélasamstæðunni

HB Grandi og Valka ehf stefna nú að frekari þróun á vélinni þannig að unnt sé að ná afköstum upp á 2500 kg/klst en það eru þau afköst sem vinnslan í Norðurgarði þarf á að halda. Með hinum nýja tækjabúnaði og frekari hagræðingum við vinnsluna sér HB Grandi fram á að mannaflaþörfin við pökkun á kældum flökum geti minnkað verulega auk þess sem umtalsverðar fjárhæðir sparast vegna minnkaðar yfirvigtar.

Mjög öflugt pantanakerfi er innbyggt í tækið og eykur það mjög yfirsýn og auðveldar utanumhald við framleiðsluna. Sótt hefur verið um einkaleyfi bæði á RapidWeigher og RapidFeed vélunum

Prófunum á línunni mun ljúka í næstu viku og hefur Valka ákveðið að sýna tækið á Íslensku sjávarútvegssýningunni, á bás nr: H32 í höll 2, sem haldin verður frá 7-10 september n.k. í Kópavogi.Til baka Senda grein

header7


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica