Fréttir

AVS verkefninu “PAH-efni í reyktum sjávarafurðum” lokið

16.11.2004

Nýlega lauk AVS verkefni Helgu Halldórsdóttur þar sem sett var upp og prófuð aðferð til að mæla PAH efni í reyktum afurðum. En þetta verkefni var mastersverkefni hennar og útskrifaðist Helga í lok október sl. frá Háskóla Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem AVS verkefni er unnið sem mastersverkefni, en nokkur önnur eru í farvatninu.

Aðferðin sem Helga vann með byggðist á alkalísku niðurbroti, hreinsun á kísilsúlu og mælingu á HPLC með flúrskinsnema. Sum PAH efnanna eru krabbameinsvaldar og er benzo[a]pyrene (BaP) talið þeirra skaðlegast. 

Hjá Evrópusambandinu hafa verið lögð fram drög að reglugerð varðandi hámarksstyrk þess í nokkrum fæðutegundum, þ.á.m. reyktum matvæum.  Lagt er til að hámarks leyfilegur styrkur benzo[a]pyrene í reyktu kjöti og fiski sé 5 mg/kg.  Styrkur 15 PAH efna, þ.m.t. BaP, var mældur í reyktum íslenskum matvælum, í 21 sýni sjávarfangs og í 9 sýnum af kjötvörum.  Benzo[a]pyrene mældist einungis í tveimur sýnum á bilinu 1-2 mg/kg sem er undir væntanlegu hámarksgildi ES.  Einungis var mælt í vörum sem eru framleiddar fyrir markað, innlendan og/eða erlendan.  Styrkur annara efna var nokkuð breytilegur á milli sýna. 

Fyrir fiskmetið reyndist samanlagður styrkur þessara 15 efna lægstur í þorskhrognum 30 mg/kg en hæstur í silungi sem reyktur var á hefðbundinn hátt (ekki í vélstýrðum ofni), 1565 mg/kg.  Fyrir kjötvörurnar mældist minnst af efnunum í  brauðskinku 3 mg/kg en mest í hangiframparti, 597 mg/kg.  Sama munstur var hjá öllum sýnunum varðandi hegðun efnanna.  Léttasta efnið naphthalene var alltaf í langhæstum styrk, 50-70% af heildarstyrk.  Styrkur efnanna lækkaði síðan hratt eftir því sem að efnin urðu þyngri og mjög lítið mældist af efnum þyngri en pyrene.  En það eru þyngri efnin með 4-7 hringi sem geta verið krabbameinsvaldandi.Til baka Senda grein

header17


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica