Fréttir
  • Þorskseiði
    Þorskseiði

Ódýrir próteingjafar í þorskeldi

27.10.2004

Nýlega lauk verkefninu Ódýrir próteingjafar sem valkostur við hágæða fiskimjöl í þorskfóður sem styrkt var af AVS. Verkefnið hófst seinni hluta ársins 2003 og var tilraunum lokið um mitt ár 2004. Verkefnið var samstarfsverkefni Fóðurverksmiðjunnar Laxá, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Háskólans á Akureyri og Hólaskóla-Háskólans á Hólum. Verkefnisstjórar í verkefninu voru Jón Árnason og Rannveig Björnsdóttir. Framkvæmd var að mestu í höndum Þorvalds Þóroddssonar, nemanda í rannsóknatengdu meistaranámi við Auðlindadeild HA og Rf.

Markmið verkefnisins var að leita leiða til lækkunar fóðurkostnaðar við eldi á þorski. Um 50-60% prótein eru í fóðri fyrir þorsk og er fóðurkostnaður stærsti einstaki kostnaðarþátturinn í framleiðslu á eldisþorski. Prótein er dýrasta næringarefnið í þorskfóðri og próteinverð er hæst í hágæða fiskimjöli. Til þess að lækka fóðurkostnað er því mikils virði að vita í hvaða mæli unnt er að nota ódýrari próteingjafa í stað hágæða fiskimjöls. Sem dæmi um sparnað sem af því hlytist má nefna að 1% lækkun fóðurverðs skilar u.þ.b. 0,6% lækkun framleiðslukostnaðar á þorski í eldi, þar sem fóðurkostnaður er í dag u.þ.b. 60% af framleiðslu kostnaði í þorskeldi. Áhrif ódýrra próteingjafa voru skoðuð á því tímabili þegar seiðin vaxa hvað hraðast (25 g seiði). Prófaðir voru mismunandi gæðaflokkar fiskimjöls svo og sojamjöl og maís-glútenmjöl. Athyglisverðasta niðurstaða verkefnisins var að ekki reyndist marktækur munur á vexti fisks sem fékk eingöngu hágæða fiskimjöl í fóðri, samanborið við fisk sem fékk sojamjöl að hluta í stað hágæða fiskimjöls .

Niðurstöður, samantekt og helstu ályktanir verkefnisins hafa verið kynntar í skýrslu til AVS-sjóðsins. Þorvaldur Þóroddsson sem unnið hefur að verkefninu í rannsóknatengdu framhaldsnámi mun kynna niðurstöður verkefnisins á ráðstefnu "Sats på torsk" sem haldin verður í Noregi í febrúar á næsta ári. Að þeirri kynningu lokinni verða niðurstöður birtar í opinni skýrslu, á fundum og annars staðar þar sem ástæða þykir til að kynna verkefnið og niðurstöður þess

Skýrsla verkefnisstjóra

Til baka Senda grein

header18


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica