Fréttir

Hverju hafa úthlutanir á aflaheimildum til þorskeldis skilað?

11.3.2004

Fyrstu tilraunir með söfnun á villtum þorski til áframeldis í sjókvíum á Íslandi hófust sumarið 1992. Fyrstu árin studdi sjávarútvegsráðuneytið við bakið á þeim sem gerðu tilraunir með þorskeldi með því að úthluta hverjum aðila 5 tonna kvóta af lifandi þorski. Þrátt fyrir þetta dofnaði áhuginn fljótt, verðið sem fékkst fyrir þorskinn lækkaði og fyrirhöfnin var mikil miðað við tiltölulega lítil umsvif. Aðalhindrunin var að safna nægilega miklu af þorski á hagkvæman hátt.

Þann 15. maí 2002 voru samþykktar breytingar á lögum nr. 38/1990 um stjórnun fiskveiða þar sem fram kemur að ,,á fiskveiðiárunum 2001/2002 til og með 2005/2006 hefur ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 500 lestum af óslægðum þorski. Þessum aflaheimildum skal ráðstafað til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem fylgist með tilrauninni og birtir niðurstöður um gang hennar”.

Með úthlutun á árlegum 500 tonna þorskeldiskvóta hefur átt sér stað mikil aukning í áframeldi á þorski. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki hafa nú hafið þorskeldi og má þar nefna Brim-fiskeldi ehf. (Útgerðarfélag Akureyringa hf.), Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., Síldarvinnslan hf., Eskja hf., Guðmundur Runólfsson hf. og Þórsberg hf.   Fyrirtækin eru að kanna hvort hægt sé að vera með arðbært þorskeldi á Íslandi.  Litið er á áframeldi á villtum þorski í sjókvíum sem skammtímalausn þar sem það mun ekki keppa við eldi með kynbættum eldisþorski í framtíðinni.  Úthlutun á aflaheimildum til áframeldis á þorski er þó mikilvægar við þróun sjókvíaeldis á Íslandi, en aðstæður eru erfiðari hér en hjá samkeppnislöndum.   Ef vel tekst til getur sjókvíaeldi hér á landi hugsanlega orðið samkeppnishæft við eldi í samkeppnislöndum þegar eldi á kynbættum þorski hefst.

 

Frá því að fyrst var farið að úthluta 500 tonna aflaheimildum ár hvert, hefur átt sér stað mikil þekkingaruppbygging.  Fyrirtækin hafa miðlað á milli sín reynslu og lögð hefur verið áhersla á að varðveita þá þekkingu sem hefur aflast.  Þau fyrirtæki sem fá úthlutað aflaheimildum þurfa að skila greinagerð um árangur af föngun og eldi síðasta árs til AVS rannsóknasjóðsins.

 

Sérfræðingar á Hafrannsóknastofnuninni í samvinnu við verkefnisstjóra hjá einstökum þorskeldisfyrirtækjum draga síðan saman niðurstöður í eina samantektarskýrslu þar sem er að finna frekari úrvinnslu, samanburð á milli fyrirtækja og ítarlegri túlkun gagna. Gefin hefur verið út ein samantektarskýrsla ,, Þorskeldiskvóti: Yfirlit yfir föngun og áframeldi þorsks á árinu 2002” og er nú verið að vinna úr gögnum frá árinu 2003.  Þessa skýrslu er að finna á heimasíðu Hafrannsóknastofnunnar (www.hafro.is) og einnig á heimasíðu Fiskeldishóps AVS (www.fiskeldi.is).  Fiskeldishópur AVS er faghópur undir AVS rannsóknasjóði og leggur faglegt mat á allar umsóknir er tengjast fiskeldi og berast AVS rannsóknasjóðnum.

 

Fyrstu tvö árin sem aflaheimildum til þorskeldis hefur verið úthlutað hefur erfilega gengið að fanga allan kvótann.  Að hluta til er það vegna þess að úthlutun hefur verið seint á kvótaárinu og að reynsla og þekking á því að fanga lifandi þorsk hefur ekki verið nægileg.  Yfirlit yfir úthlutun á aflaheimildum fyrir fiskveiðiárin 2001/2002, 2002/2003 og 2003/2004 er að finna í töflu hér fyrir neðan Á árinu 2002 voru framleidd um 205 tonn og á árinu 2003 hefur framleiðslan því sem næst tvöfaldast. Miklar birgðir eru af þorski í sjókvíum og er að vænta mikillar framleiðsluaukningar á næstu árum. 

 

Úthlutun á aflaheimildum fyrir fiskveiðiárin 2002,2003 og 2003/2004. 

Fyrirtæki / úthlutun fiskveiðiárið

2001/2002

2002/2003

2003/2004

Kví ehf., Vestmannaeyjum

40

30

75

Aquaco ehf.,

30

 

 

Guðmundur Runólfsson hf., Grundarfirði

50

30

65

Oddi hf., Patreksfirði

 

70

10

Þórsberg ehf., Tálknafirði

35

120

55

Álfsfell ehf.,

 

 

10

Glaður ehf. (Ketill Elíasson), Bolungarvík

15

15

10

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf., Álftafirði

90

50

100

Dúan sf., Siglufirði

 

15

 

Rostungur ehf., Eyjafirði

20

 

 

Brim – fiskeldi ehf. (Útgerðarfélag Akureyringa hf.)

90

50

100

Vopn-fiskur ehf. Vopnafirði

 

20

10

Veiðibjallan, Norðfirði

 

 

5

Síldarvinnslan hf., Norðfirði

50

50

30

Eskja hf. (Hraðfrystihús Eskifjarðar hf.)

50

50

30

Ósnes ehf. Djúpavogi og Skútuklöpp ehf. Stöðvarfirði

30

 

 

Samtals

500

500

500Til baka Senda grein

header15


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica